Dynjandi
Dynjandi
Dynjandi myndast þegar Dynjandisá fellur fram að bröttum hömrum Dynjandisheiðar. Fossinn ber nafn sitt af þeim dynjanda sem þessi vatnsmikli foss framkallar. Fossinn liðast til sjávar í Dynjandisvog og fellur í mörgum smærri fossum á leið sinni þangað. Dynjandisvogur gengur inn af Arnarfirði. Í hugum margra er þetta fallegasti fossinn á Íslandi og hefur honum verið líkt við brúðarslör, eða hadd sjálfrar fjallkonunnar. Eitt er víst að fossinn hefur djúp áhrif á alla þá sem koma nálægt honum. Ganga upp með fossinum, meðfram litlu fossunum sem myndast þegar hann fellur til sjávar, er hugleiðslu líkust. Dynurinn, vatnsúðinn, gróðurinn, ilmurinn og umhverfið allt skapa þessa mögnuðu stemningu.
Dynjandi
Í sumum heimildum ber fossinn nafnið Fjallfoss. Á Vísindavef Háskóla Íslands er svar við spurningunni: Foss á Vestfjörðum er bæði kallaður Dynjandisfoss og Fjallfoss, hvort svarið er réttara? Og svarið sem fram kemur á síðunni er: "Fossinn heitir Dynjandi og dregur nafn af hljóði sínu. Nöfn á fossum og ám eru oft mynduð með –andi, samanber Rjúkandi, Mígandi. Nafnið Fjallfoss á fossinum er rangnefni, en sagt er um bæinn Dynjanda í sóknarlýsingu Rafnseyrarkirkjusóknar 1839 eftir sr. Sigurð Jónsson, að hann taki nafn af stórum fjallfossi árinnar, sem rennur hjá bænum. (http://www.visindavefur.is/svar.php?id=47894)
Myndir á þessari vefsíðu eru allar teknar í einni af mörgum ferðum mínum upp að fossinum kraftmikla. Ég er er svo lánsöm að eiga dvalarstað í nágrenni við þennan foss hluta af árinu.