Myndband 1
Myndbandið á að sýna á stórum vegg í rúmgóðum sal og það eiga að vera góðir hátalarar báðum meginn við vegginn. Fyrir framan vegginn eiga að vera djúpir, þægilegir stólar sem áhorfendur geta sest í. Í salnum eiga ljós að vera slökkt og dyr lokaðar.
Þessi texti á að standa á spjaldi fyrir framan vegginn:
Móðir Jörð eða Gaia eins og hún er nefnd í grískri goðafræði er lifandi vera. Hægt er að heyra andardrátt hennar í vindinum og nið líkamsvessa hennar í sjávarföllunum. Horfðu á þetta myndband og sjáðu þangið bylgjast í brimróti hafsins og vindinn gára yfirborð þess. Hlustaðu á gný vindsins og takbundið öldugjálfrið og útilokaðu allt annað úr huga þér. Þá kemstu í samband við Gaiu, þessa miklu veru sem fóstrar okkur öll og þú verður ekki söm manneskja á eftir.
Myndband 1. Ómurinn frá Móður Jörð, Gaiu.
Myndband 2
Fyrir utan salinn á að vera lítill skjár með myndbandi af tökustaðnum og við hlið skjásins á að standa: Samleikur hafs og vinds á Stafnesi endurróma Móður Jörð, Gaiu.
Myndband 2. Tökustaðurinn, Stafnes á Rosmhvalanesi.
Í sýningaskrá á þessi texti að vera
Móðir Jörð, Gaia. Videó verk eftir Sigurlaugu Kristmannsdóttur. Myndböndin eru tekin á Rosmhvalanesi suður af Stafnesvita, eftir hádegi laugardaginn 24. september 2016. Notuð var Canon EOS 750 D myndavél með 18-55 mm linsu. Myndavélin stóð á þrífæti og ljósmyndarinn þurfti að ríghalda í græjurnar svo þær fykju ekki út í hafsauga. Það hvein í vindinum og heyra mátti í öldum hafsins í bland við hvininn. Fuglar og flugvélar flugu yfir svæðið á meðan á myndatökunni stóð og rufu samhljóm vinds og sjávar. Myndböndin voru klippt þannig að einungis heyrðust hljóðin frá vindi og sjó, það er ómurinn frá Móður Jörð sjálfri, Gaiu.
Verkið er tileinkað föður mínum Kristmanni Guðmundssyni. Þetta var leikvangur æsku hans.
Sem framhald af þessu verki væri hægt að taka upp fleiri myndir og hljóð af Gaiunni okkar, það er myndir sem sýna hreyfingu í líkama Móður Jarðar og hljóðin sem henni fylgja.