Skilasíða

Ég heiti Sigurlaug Kristmannsdóttir og ég er fædd í Sandgerði þann 17. september 1956.  Ég gekk í Barnaskólann í Sandgerði og þaðan lá leiðin í landspróf í Gagnfræðaskólanum í Keflavík.  Að loknu landsprófi fór ég í Menntaskólann á Ísafirði þar sem ég lauk stúdentsprófi 1976.  Árið 1980 útskrifaðist ég með BSc próf í líffræði frá Háskóla Íslands og tveimur árum síðar lauk ég prófi í uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla.

Kennsluferilinn hóf ég í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þar kenndi ég í 2 ár.  Síðan flutti fjölskyldan á Selfoss og fljótlega eftir komuna þangað fór ég að kenna í Fjölbrautaskóla Suðurlands.  Eftir 18 ára dvöl á Selfossi flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og þar kenndi ég fyrstu árin í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.  Síðustu tíu árin hef ég verið fjarnámsstjóri Verzlunarskóla Íslands. Ég fór snemma að nýta mér tölvur og upplýsingatækni í skólastarfi.  Ég gerðist fjarkennari á tíunda áratug síðustu aldar en á þeim tíma vissu fáir hvað alnetið eða internetið var.  

Ég lærði snemma að gera vefsíður með því að skrifa html kóðann sjálf og er öruggust í þannig vefsíðugerð.  Hef samt notað ýmis forrit til vefsíðugerðar, en gríp til kóðans ef mikið liggur við.  Á netinu eru margar vefsíður sem ég hef gert og meðal annars sú sem ég og samstarfskona mín í FÁ fengum svokölluð E-school verðlaunin fyrir árið 2002.  

rokkur
Sigurlaug með rokkinn

Ég er gift og við hjónin eigum tvö börn.  Ég hef mikla ánægju af handavinnu og prjónarnir eru þau verkfæri sem ég kann best á.  Með þá í höndunum fæ ég útrás fyrir sköpunarþörfina.  Síðast liðinn vetur eignaðist ég rokk og draumurinn er að spinna ull og búa til garn og lita það síðan með jurtalitunum.  Á myndinni er ég með rokkinn minn, rétt eftir að hann kom á heimilið.  Sjá nánar um áhugamál.