25. október 2015
Sunnudagurinn 25. október og hér hef ég setið í allan dag og teiknað. Fyrst var það kassi sem ég átti að taka nokkra kubba úr og skyggja svo eftir kúnstarinnar reglum. Síðan varð það kúla sem þurfti að skyggja og það gekk bara vel.
Það vafðist aðeins fyrir mér að teikna bók fríhendis, en svo áttaði ég mig á því að bók er auðvitað bara eins og kassi eða eins og tveir ferhyrndir fletir og þá gekk þetta betur. Bókin er að sjálfsögðu ekki fullkomin enda ætlast ég ekki til þess af mér svona í fyrstu atrennu.
En þetta er skemmtilegt og nú er bara að halda áfram. Næsta verkefni eru bækur og þær hljóta bara að vera eins og nokkrir kassar uppstaflaðir, eða hvað?