Skilasíða

22. febrúar

Greinagerð vegna lokaverkefnis skrifuð og reynt að afmarka efnið.

25 - 27. febrúar, staðbundin lota

Vann við bæklinginn á fullu, var ekki tilbúin til að leggja niður fyrir mér hvernig lokaverkefnið ætti að vera fyrr en eftir að hann hefur verið kláraður.

28. febrúar – 13. mars

Unnið við bæklinginn og honum skilað 13. mars. Þá er bókin næst á dagskrá.

14. – 20. mars

Íslendingabók skoðuð og upplýsingar um ættir Sigurlaugar ömmu skrifaðar niður. Þar var mikið vitnað í „Ættir Þingeyinga“ og ljóst að ég þarf að ná mér í hana á bókasafninu.

21. – 22. mars

Fékk „Ættir Þingeyinga“ á bókasafninu og las allt sem ég gat um forfeður ömmu. Í bókinni var vitnað í tvær bækur: „Mannamál“ eftir Þórarinn Gr. Víking og „Hverra manna“ eftir Árna Óla. Ég þarf að fá þær bækur fyrir páska, því það verður stóra heimildavinnuhelgin.

23. mars

Sótti bækurnar „Mannamál“ og Hverra manna“ á bókasafnið. Fann þar líka „Saga Húsavíkur“ eftir Karl Kristjánsson. Tók hana með.

24. – 28. mars

Stóra heimildavinnuhelgin. Sat yfir heimildavinnu alla helgina. Las um ættmenni ömmu í bókunum „Mannamál“, „Hverra manna“, „Ættum Þingeyinga“ og Íslendingabók alla helgina og skrifaði niður heimildir í word skjöl. Las allar dagbækur afa og skráði niður allt efni sem ég gat þar sem vikið var að Sigurlaug ömmu og samskiptum þeirra. Vað ljóst að ég gat ekki skrifað um ömmu nema að gera afa skil líka, því aðal heimildir mínar um hana eru orð hans í dagbókunum. Tók því til við að fara aftur í gegnum allar heimildir og vinna upplýsingar um afa og ættmenni hans út frá þeim á svipaðan hátt og ég var búin að gera um ættir ömmu. Skráði allar upplýsingar í word.

29. – 30 mars

Rakst á Bændatal á Tjörnesi á 19. öld á netinu (24. mars), skrifaði tölvupóst á Héraðsskjalasafn Þingeyinga og spurði hvort þeir ættu það til og viti menn, 29. mars var skjalið komið frá þeim í tölvupósti. Handskrifað skjal og skannað inn. Í framhaldinu spurði ég hvort til væru minningarræður um ömmu og afa sem séra Friðrik A. Friðriksson hafði haldið yfir moldum þeirra. Jú þau voru til og voru þau komin í tölvupósti til mín 30 mars.

31. mars

Unnið upp úr Bændatali á Tjörnesi. Fann einnig bækling um Niðjamót Sesselju Andrésdóttur og Jóhannesar Sigurðssonar, foreldra Sigfúsar afa. Ákvað að nýta efni úr henni.

1.apríl – 4. apríl

Loksins kominn tími til að ræsa Indesign og setja textann inn í skjalið, það er vinnulota næsta laugardag og betra að vera byrjaður áður til að lotan nýtist sem best Ég er með mikinn texta og mér hálfpartinn fallast hendur við allt þetta magn sem ég er með, reyni að skera allan óþarfa í burtu. Ég valdi stærð sem var 1,5 sinnum gullnasniðið og leturgerðirnar Franklin og Garamond. Finnst þetta virðulegar leturgerðir og hæfa efninu. Ákvað að hafa 5 dálka, setja texta og myndir í 4 dálka til hægri á hægri síðum og fjóra dálka til vinstri á vinstri síðum. Láta svo myndir skaga út úr og fylla út í auða dálkinn. Leyfa mér að setja texta undir myndir og brjótast út úr forminu þar sem það þarf.

5. – 8. apríl

Unnið við að setja texta í Indesign. Textinn úr minningarræðu séra Friðriks sleginn beint inn í Indesign. Gekk ver að lesa hann en textann sem afi skrifaði í dagbækur sínar, er trúlega orðin vön handskrift afa en handskrift Friðriks er öðruvísi og sums staðar voru blöðin orðin máð.

9. apríl

Vinnudagur í Borgarholtsskóla. Unnið við að slá textann úr minningarræðu séra Friðriks um af beint inn í Indesign. Nokkur atriði borin undir kennara varðandi uppsetninguna. Þar kom í ljós að ég hafði valið því sem næst A-4 stærð á skjalið og það þarf ég að laga. Þetta er ekki falleg stærð á bók. Breiddin er í lagi, en það þarf að minnka lengdina. Geri það á morgun.

10. apríl

Lokið við að slá inn textann úr minningarræðu séra Friðriks á afa. Haldið áfram við að laga textann til. Stytti bókina sem þýddi að ég þurfti að laga texta á nánast öllum sínum.

11. – 15. apríl

Stóra textavinnuvikan. Sat við að fullgera textann alla helgina. Gekk úr skugga um að hvergi væru mótsagnir og að orðalagið væri í lagi. Fór í gegnum allar orðskiptingar og lagaði, stundum með því að setja inn auka orð (t.d. þann) eða taka út óþarfa orð og stundum með því að ákveða sjálf hvar orðskiptingin ætti að vera. Loksins, loksins hef ég á tilfinningunni að einhver mynd sé að komast á verkið

16. apríl

Ljósmyndir teknar af skotthúfu ömmu, skrifborði afa og hluta af bollastelli sem ég á úr búi þeirra. Farið upp í skóla og dagbækur afa og ljósmyndir úr safni fjölskyldunnar skannaðar inn. Einnig skannaði ég inn myndir úr lítilli bók sem mamma átti þegar hún var lítil stúlka. Þessar myndir unnar í Photoshop eftir að heim kom og settar í Illustrator. Gerði þau mistök að nota tiff myndir, var ekki viss um að það mætti og sendi Hafdísi póst til öryggis.

17. apríl

Hafdís svaraði bréfi mínu og benti mér á mistökin sem ég var að gera. Ég reyndi að gera betur og sendi Hafdísi nokkrar prufur, hún svaraði alltaf strax og því sóttist vinnan vel þennan sunnudag. Takk Hafdís fyrir að svara alltaf jafnóðum.

18. apríl

Fór yfir allan textann og lagaði það sem betur mátti fara. Lagði uppsetningu á nokkrum síðum og hagræddi myndum sem voru óþarflega þéttar. Fór í gegnum upplýsingar um allar myndir í Indesign og lagaði þær sem voru ekki með nógu mikla upplausn. 19.apríl

19. apríl

Allar myndir í bókinni endurnýjaðar. Unnið út frá frummyndum, þær teknar í Photoshop og passað að vista þær með upplausn (resolution) 300. Myndirnar settar á sinn stað í skjalið. Passað að myndatextar séu í sömu afstöðu gagnvart myndum í allri bókinni. Farið í gegnum orðskiptingar, enn einu sinni. Verkið prentað út og skoðað gaumgæfilega og lagað það sem augað segir að þurfi að laga. Kiddi og Ragna fengu svo útprentaða skjalið en þau ætla að lesa það með tilliti til málfars og stafsetningar. Spurði son minn á leiðinni heim úr vinnu hvort hann hefði einhverjar hugmyndir fyrir forsíðu og baksíðuna. Svar hans var: „Æi ég var að koma úr prófi og er búinn að slökkva á heilanum“. Ég gaf mig ekki og gekk á hann og þá kom: „Taktu bara blaðsíður úr bókinni hans langafa og notaðu þær“. Hvílík hugmynd! Ég nota hana. Bjó til heimildaskrá, tilvitnanaskrá, myndaskrá. Lagaði formálann og setti inn upplýsingar um bókina á blaðsíðuna gegnt blaðsíðunni með formálanum.

20.apríl

Forsíða og baksíða búnar til í Illustrator út frá jpeg myndum af dagbókum afa. Skjalið tekið í Photoshop og unnið aðeins með það. Að lokum sett sem myndir í Indesign. Letur sett á myndirnar. Ég er bara nokkuð sátt við afraksturinn. Laga málsgreinar með inndrætti (beinar tilvitnanir), hann var 3 punktar og ég breyti honum í 6 puntka. Þetta skapar meiri ró á síðunum. Hef ákveðið að gera ekki meira fyrr en ég fæ athugasemdir frá kennara. Athugasemdirnar komu seinni partinn í dag, frá Önnu Rakel. Mjög faglegar og skýrar og ég var sátt við þær næstum allar. Ég lagaði allt þar sem þar var talað um, nema nokkur atriði. Þessu breytti ég: Ég minnkaði efnisyfirlitið, lagaði texta á bls. 8, lagaði myndatexta á bls. 11, minnkaði blaðsíðutöl og vann forsíðuna betur. Það tók nánast allt kvöldið, ég gerði margar tilraunir áður en ég varð sátt og lærði heilmikið á Illustrator+Photoshop við það allt sman. Er nú bara nokkuð sátt. Þessi atriði ætla ég að hafa óbreytt, þrátt fyrir athugasemdir kennara: Ákvað að setja textann hjá mér ekki í dálka, ég vil hafa textann flæðandi í einu á hverri síðu, ekki búta hann niður í dálka. Ég prófaði nokkrar leturgerðir (steinskrift) í fyrirsagnir, en endaði afur á Franklin, mér finnst það svo virðuleg leturgerð og hæfa þessu efni. Vil ekki minnka línulengdina, dálkastærðin er miðuð við að myndir njóti sín sem best og textinn á að flæða á milli þeirra.

21. apríl

Sumardagurinn fyrsti. Fór í gegnum allar orðskiptingar, tel þær núna vera eins og þær eiga að vera. Sendi nýtt handrit til Önnu Rakelar.

22. apríl

Prófarkalas og lagaði texta. Er ósátt við hvað spássíurnar eru litlar, tók ákvörðun seint um kvöldið að breyta því daginn eftir.

23. apríl

Breikkaði spássíur úr 12,7 mm í 25,4 mm, bæði ofan/neðan og hægri/vinstri. Sat við að laga allar síður í skjalinu langt fram á kvöld. Þessar breytingar kölluðu á fleiri blaðsíður og því þurfti ég að dreifa textanum á annan hátt, raða myndunum aftur og laga orðskiptingarnar sem ég hafði lagfært í gær.

24.apríl

Kiddi og Ragna komu með próförkina útkrotaða, þau voru búin að lúslesa skjalið og fundu ýmislegt sem betur mátti fara. Ég lagaði textann í samræmi við athugasemdir þeirra. Fór í gegnum allar orðskiptingar. Skipti út einni mynd úr dagbók afa. Lagaði efnisyfirlitið og bætti við yfirkafla sem heitir Viðaukar. Tók mynd af kistli mömmu til að skreyta kaflasíðuna. Anna Rakel kom með margar gagnlegar ábendingar, ég tók þær allar fyrir og lagaði skjalið í samræmi við þær. Færði m.a. texta og myndir upp svo það loftaði um blaðsíðutalið á öllum síðum. Lagaði griddið efst á síðunum. Lagaði 3 smámyndir og er sáttari við staðsetningu þeirra núna. Það er míkil fínisering eftir áður en ég verð sátt við skjalið, en þetta er að koma.

25. apríl

Sendi Sigfúsi bróður skjalið, hann ætlar að lesa það og koma með athugasemdir.

26. apríl

Fékk athugasemdir frá Sigfúsi og lagaði það sem hann sá að betur mætti fara. Prentaði skjalið út og lagaði það sem betur mátti fara.

27. apríl

Fór í gegnum allar fyrirsagnir og samræmdi. Seint um kvöldið komu athugasemdir frá Hafdísi varðandi myndirnar, þær eru sumar pixlaðar hjá mér.

28. apríl

Lagaði myndir, þær sem ég gat. Staðbundin lota seinni part dagsins og þar hélt ég áfram við að laga myndirnar. Um kvöldið fór ég til Kidda bróður og skannaði nokkrar myndir aftur.

29. apríl

Staðbundin lota í allan dag, fékk gagnlegar ábendingar frá Margréti Rósu varðandi allar fyrirsagnir, undirfyrirsagnir og aðalfyrirsagnir. Lagaði það. Anna Rakel kom með ábendingar varðandi það að láta myndir og texta flúkta betur. Í lok dagsins setti ég verkefni á issuu.com

Set slóðina á Facebook síðu niðja Sigfúsar og Sigurlaugar í kvöld. Sendi Kristjáni frænda frá Ketilsstöðum slóðina og eins til starfsmanna í Héraðsskjalasafni Þingeyinga. Kristján rak augun í tvær villu, aðra að Spónsgerði í Hörgárdal væri í Eyjafjarðarsýslu en ekki í Eyjafirði eins og ég hafði skrifað og svo að Ytribakki í Axarfirði og Ytribakki í Garðssókn (í Kelduhverfi) væru sami bærinn. Dásamlegt að hafa vökul augu Kristjáns frænda með í þessu verki.

29. apríl

Staðbundin lota. Verkið kynnt fyrir hinum.

29.maí

ISBN númer og strikamerki sett í rafbók og annað sett í skjal sem þá er tilbúið til prentunar.