Skilasíða

砂の女

Japanska kvikmyndin „Suna no onna“ var sýnd á vegum „Fjalarkattarins“ í Tjarnarbíói fyrir tæpum 40 árum. Sýningin var mjög áhrifarík og hafa atriði úr þeirri mynd lifað í huga mér síðan. Ég ákvað því að leggjast í rannsóknarvinnu og kanna hvað það var við þessa mynd sem hafði svona mikil áhrif á mig og jafnframt hvort myndin hefði ennþá sömu áhrif.

Í bandarískri þýðingu hlaut myndin nafnið „Woman in the Dunes“ en í kanadískri þýðingu „Woman in the Sand“. Kanadíska nafnið hefur verið kveikjan að íslenska nafni myndarinnar því hér var hún kölluð „Konan í sandinum“. Sjá mynd 1 af kynningarveggspjaldi myndarinnar í Bandaríkjunum. (http://www.imdb.com/title/tt0058625/mediaviewer/rm2454690048)


Mynd 1. Kynningarveggspjald myndarinnar „Suna no onna“

Í minningunni er þetta mynd um samspil manns og náttúru, samskipti manns og konu og glímu einstaklingsins við lífið og sjálfan sig.

Myndin er tekin í svart-hvítu og myndatakan er eftirminnilega. Í huga mér lifa ennþá sterk skot sem minna á myndverk. Tónlistin er mjög áhrifarík og undirstrikar vel myndræna frásögnina. Klippingin gefur áhrifaríka myndröð (myndfléttu) eða montage.

Myndin er gerð eftir samnefndri skáldsögu Kôbô Abe og skrifaði hann einnig kvikmyndahandritið. Kôbô Abe, sem réttu nafni hét Abe Kimifusa, var japanskur rithöfundur. Hann fæddist árið 1924 í Tókýó í Japan og hann lést árið 1993. Hann var alinn upp í Mansúríu og eitt af hans áhugamálum þegar hann var barn var skordýrasöfnun. Eftir hann liggja margar skáldsögur og ljóðabækur og gaf hann út bókina „Suna no onna“ árið 1962. (https://www.britannica.com/biography/Abe-Kobo)

Leikstjóri myndarinnar „Suna no onna“ var Hiroshi Teshigahara og kom myndin út árið 1964. Hiroshi Teshigahara var fæddur árið 1927 í Tókýó í Japan og hann lést árið 2001. Teshigahara var menntaður í myndlist og arkitektúr. Eftir hann liggja margar myndir, af þeim hlaut myndin „Suna no onna“ mesta eftirtekt, meðal annars var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin árið em hún kom út. (http://sensesofcinema.com/2003/great-directors/teshigahara/)

Aðalleikarar myndarinnar „Suna no onna“eru japanskir og heita þeir Eiji Okada sem leikur Jumpei Niki og Kyôko Kishida sem leikur konuna í sandinum. Eiji Okada var fæddur árið 1920 og hann lést árið 1995. (http://www.imdb.com/name/nm0645402/) Kyôko Kishida var fædd árið 1930 og hún lést árið 2006. (http://www.imdb.com/name/nm0457219/) Samleikur þeirra í myndinni „Suna no onna“ er eftirminnilegur og á hann þátt í að gera myndina jafn áhrifaríka og hún er.

Söguþráður bókarinnar „Suna no onna“ og samnefndrar myndar: Jumpei Niki kennari frá Tókýó er staddur í nágrenni við afskekkt þorp við sjávarsíðuna í þeim tilgangi að safna skordýrum úr fjörunni. Degi er tekið að halla og hann gleymir tímanum og missir af síðustu áætlunarferð til Tókýó. Innfæddir þorpsbúar bjóðast til að útvega honum gistingu og hann þiggur það. Gistingin er á heimili ungrar konu og húsið hennar er í botninum á djúpri sandgryfju og þangað er einungis hægt að fara með því að ganga niður langan kaðalstiga. Um kvöldið kemst hann að því að unga konan er ekkja, eiginmaður hennar og dóttir fórust í sandstormi og lík þeirra hafa ekki fundist. Næsta morgun þegar Niki æltar að yfirgefa húsið, þá er búið að fjarlægja stigann og hann kemst ekki í burtu úr sandgryfjunni. Stiginn hefur verið dreginn upp úr sandgryfjunni og engum er fært að klifra upp sandveggi gryfjunnar. Sjá mynd 2 af Niki og konunni í sandinum. (http://www.imdb.com/name/nm0457219/?ref_=tt_ov_st_sm)


Mynd 2. Eiji Okada og Kyôko Kishida í „Suna no onna“

Niki er því fastur í holunni með ekkjunni ungu. Fljótlega finnur hann út að ætlun þorpsbúanna og ekkjunnar var að veiða hann í þessa gildru í þeim tilgangi að fá mannsefni handa henni. Honum var ætlað að hjálpa henni við að moka sand og passa uppá að heimili hennar færi ekki á bólakaf í sandinn og gleypa íbúana lifandi. Skordýrafræðingurinn og ekkjan eru háð þorpsbúunum við að losna við sandinn og einnig við að færa þeim vatn og vistir. Hann uppgötvar að baráttan við að halda sandinum frá heimilinu er það sem líf ungu konunnar snýst um og hún þekkir ekkert annað. Honum er því nauðugur einn kosturinn að hjálpa henni við sandmoksturinn en um leið reynir hann að finna leiðir til að flýja úr þessum erfiðu aðstæðum. Þegar fram líða stundir kemur einnig í ljós að honum eru ætluð önnur hlutverk en að hjálpa henni við að moka sandinn. Og árin líða...

Niki reynir nokkrum sinnum að flýja aðstæður sínar en tekst það ekki. Hann komst einu sinni uppúr sandgryfjunni en villtist í sandflæminu umhverfis gryfjuna og lenti í kviksyndi. Þorpsbúar bjarga honum og fara með hann aftur í gryfjuna til ekkjunnar. Sjá mynd 3 af Niki í kviksyndinu. (http://www.imdb.com/name/nm0645402/?ref_=tt_ov_st_sm)


Mynd 3. Eiji Okada í „Suna no onna“

Eitt atriði úr myndinni er mér mjög minnistætt, en þar grefur Niki holu í sandinn og egnir gildru til að veiða í krákur. Þegar hann vitjar gildrunnar kemur í ljós að vatn hefur safnast í holuna. Niki lítur ofan í holuna og sér þá sína eigin spegilmynd. Þetta er töfrastundin í myndinni því þarna skilur hann að alveg sama hvað hann reynir að flýja þá mun hann alltaf fyrirhitta sjálfan sig. Í honum sjálfum er að finna lausnir við öllum hans vandamálum. Í framhaldi af þessu finnur hann leið til að nýta vatnið fyrir þau hjúin í sandgryfjunni og eftir það eru þau ekki lengur háð þorpsbúum hvað vatn snertir. Honum tókst ekki að flýja úr gryfjunni, en hann gat gert sér og konunni í sandinum lífið í gryfjunni bærilegra.

Samband Nikis og konunnar í sandinum verður nánara eftir því sem líður á myndina. Þau verða góðir vinir og vinna náið saman við sandgröftinn. Rómatíkin gerir vart við sig og samband þeirra þróast út í að verða ástarsamband. Líf þeirra snýst um að moka sand, sofa, borða og kynlíf. Smátt og smátt verður Niki sáttari við hlutskipti sitt og nýtir ekki tækifæri sem hann fær til að flýja aðstæður. Í lok myndarinnar á hann von á barni með konunni í sandinum og þau una bæði við sinn hag í gryfjunni sem er heimili þeirra beggja. Þegar öllu er á botninn hvolft þá verður hver maður með sjálfum sér að lifa óháð umhverfinu sem hann lifir í.

Trailer:

Myndin í heild sinni:

Fyrirlestur fluttur í staðbundinni lotu fjallar um (punktar):

1.
Byrjunina: Samspil tónlistar og kynningartexta gefa til kynna hvers er að vænta í myndinni.

2.
Myndskeið eftir 2 mínútur: Montage: Klippt frá nærmynd af sandkornum yfir í víða mynda af sandöldum og maður kemur gangandi eftir sandinum.

3.
Myndskeið eftir 28:50 mínútur. Montage: Klippt úr mynd af sandöldum yfir í mynd af líkama konunna nakinni þar sem hún sefur.

4.
Myndskeið eftir 33:00 mínútur: Tónlistin þegar Niki uppgötvar að stiginn er farinn.

5.
Myndskeið eftir 2:05:40 mínútur: Tónlist, myndataka og klipping við atriðið þegar Niki uppgötvar vatnið í holunni.

Reykjavík 17. nóvember 2016 Sigurlaug Kristmannsdóttir

Sjá verkefni hér á pdf formi: Verkefni 10