20. apríl 2017
Það viðrar vel til inniverka í dag og ég sit við vefsíðugerðina. Kláraði reyndar lokaverkefnið í fræðilega hlutanum um hádegisbil. Ég fann þankabrot bróður míns frá árinu 2009 og ég stóðst ekki mátið að setja þau inn með mínum þankabrotum. Fékk auðvitað leyfi hans áður. Þetta kallaði á safnsíðu sem heitir Þankabrot, að breyta nafninu á minni síðu og setja þessar síður í felliglugga. Allt komið núna og ég sátt við þessa viðbót. Ennþá fýkur úti fjúkið svo ég vitni nú í þá fornfrægu bók “Gagn og gaman 2” en svona hófst fyrsta blaðsíðan í þeirri bók og ég kunni hana utan að. Öll er vísan svona.
Nú fýkur úti fjúkið
og frostið bítur kinn,
þá bezt er bók að taka
og byrja lesturinn.
Framhaldið var svo einhvern veginn svona:
Þú litla stúlkan ljúfa
nú líttu á þetta blað.
Þú líka þarft að læra
svo lesið getir það.