Ég heiti Sigfús Kristmannsson og er fæddur 1951 (skrapp reyndar inneftir með mömmu til að fæðast) og uppalinn í Sandgerði. Ég fluttist síðan alfluttur úr Sandgerði haustið 1970 til að hefja nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Eftir það hef ég flutt á milli Íslands og Noregs nokkrum sinnum, og bý nú í Lófóten í Noregi þar sem ég hef búið og starfað í rúm fimm ár. Sigurlaug systir mín skoraði á mig að skrifa þankabrot, og ég sé að hún og Gunni og Diddi hafa að undanförnu skrifað um Sandgerði fyrri tíma í sínum þankabrotum undanfarnar vikur og reyni ég að endurtaka sem minnst af því sem þau hafa skrifað um.

Ég vil nota tækifærið til að þakka góðan Sandgerðisvef, og mér finnst hann efla samstöðu Sandgerðinga, og gera sitt til að þeim finnist þeir geta verið stoltir af uppruna sínum. Það er ég, og ég hef sjálfsagt oftar en margur annar þurft að útskýra hvaðan ég sé. Flestir (útlendingar), sem hafa spurt, hafa lent á Keflavíkurflugvelli. Ég útskýri að ef þeir hefðu beygt til vinstri og keyrt fjóra kílómetra í stað þess að keyra beint í bæinn, hefðu þeir komið til staðarins sem ég er frá.

Sigfús á Bala, mynd frá Sillu frænku

Sigfús á Bala, mynd frá Sillu frænku

Það er margs að minnast frá uppvaxtarárunum í Sandgerði. Ég fór snemma að vinna eins og flestir aðrir krakkar. Ætli það fyrsta sem ég gerði hafi ekki verið að bera út blöðin með Jobba Gunnu. Hún og Holli báru út Þjóðviljann, Alþýðublaðið og Tímann. Gunna gekk venjulega eftir miðjum götunum og lét mig hlaupa með blöðin inn í húsin. Þegar þau hættu tók ég við sem umboðsmaður Alþýðublaðinu og Tímans, og það var viðloðandi heimili mitt í mörg á eftir það. Yngri systkini mín tóku við þegar ég fór í sveit norður að Mývatni, en þar var ég í þrjú sumur. Ég bar líka út póstinn fyrir Hannes og Önnu á Felli í nokkur ár. Eitt sinn kallaði Gísli á Hvalsnesi mig inn til sín á skrifstofuna í Skýlinu og bað mig um að rukka fyrir sig kirkjugarðsgjaldið. Ég fékk stóran bunka með rukkunum, og ég man að ég var ekki allstaðar jafn velkominn þegar ég bankaði, annað hvort að rukka fyrir blöðin eða þetta gjald.

Til aðgreiningar var til siðs að kenna krakka við mæður sínar eða húsin (ef þau höfðu nafn), sem þeir bjuggu í, konur við menn sína og menn við konur sínar. Dæmi um þetta getur verið Hörður Dóru Kidda Lár.

Ég man fyrsta skóladaginn í vorskóla fyrir 1. bekk vel, og síðan tóku við átta ár í skóla í Sandgerði, þar sem bekkjarhópurinn var nokkuð stöðugur. Ég og minn besti vinur, Gummi í Sandvík, áttum frátekið borðið aftast fyrir miðju og þar sátum við saman flest eða öll okkar skólaár í Sandgerði. Ekki rofnaði samband okkar þó að skólagöngu lyki, við fórum m.a. saman á síldarvertíð til Fáskrúðsfjarðar haustið 1967, og tókum þátt í að útrýma síldinni. Síðan unnum við saman á tækjunum hjá frystihúsinu Garði í nokkur ár.

Myndirnar eru flestar teknar upp úr 1960 en sú frá flugsýningunni sennilega nokkrum árum síðar. Það var greinilega til siðs á þessum árum að raða sér upp eftir stærð til myndatöku:

Lovísa, Telma og Sigfús á tröppum Sveinskots rétt áður en við fluttum til Tromsø.

Lovísa, Telma og Sigfús á tröppum Sveinskots rétt áður en við fluttum til Tromsø.

Að loknum unglingaskóla í Sandgerði ákvað ég að halda áfram námi og fara í landspróf, sótti um nokkra héraðsskóla og valdi Laugarvatn. Þar var ég einn vetur og bjó í herbergi með Gilsa Baldurs. Eftir nokkura ára skólahlé trúlofaðist ég Lovísu (Lóu) frá Hafnarfirði, sem seinna varð konan mín í all mörg ár, og fluttum við til Reykjavíkur þar sem ég stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík í fjögur ár. Eftir það fluttum við í Sveinskot, sem stóð á miðjum Golfvellinum á Hvaleyrinni í Hafnarfirði með Telmu nýfædda. Árið eftir fluttum við síðan til Tromsø í Norður Noregi, en þar stundaði ég nám í sjávarútvegsfræðum við Sjávarútvegsháskólann þar í bæ. Lítið vissum við um bæinn né landshlutann áður en við fórum þangað. Þá lágu ekki allar upplýsingar undir fingurgómunum eins og núna. Það eina sem við fundum var ein setning í gamalli landafræðibók um að Tromsø væri hliðið að Íshafinu og lítil mynd af þekktri kirkju sem þar er, en við fórum samt. Í Tromsø fæddist síðan Róbert.

Tumi Róberts og Palli

Tumi Róberts og Palli

Eftir níu ár í Tromsø fluttum við aftur til Íslands og bjuggum úti á Granda í Reykjavík. Ég vann m.a. hjá Pólnum á Ísafirði og í Landsbankanum í Reykjavík. 1992 kom síðan atvinnutilboð til mín frá Finnmarksforskning í Alta í Finnmörku, nyrstu sýslu Noregs. Þá var öllu pakkað og við fluttum út aftur með Róbert og köttinn Pál, sem verður 19 ára nú á Þorláksmessu, en Telma varð eftir í Reykjavík. Eftir nokkur ár í Alta flutti síðan Róbert að heiman og Lovísa líka, og eftir urðum við Palli. Þegar mér fannst ég vera búinn með Alta fékk ég tilboð um vinnu í Lófóten sunnar í Noregi, og þangað fluttum við tveir, og höfum búið hér síðan. Lófóten er sjö byggðar eyjar og hér búa um 25.000 manns. Svæðið er þekkt fyrir náttúrufegurð, vetrarvertíð og gæðaskreið sem seld er til Ítalíu. Lófóten liggur fyrir norðan heimskautabaug, og miðnætursól er hér einn mánuð á ári og sambærilegur myrkvatími um vetur. Þessi tímabil eru tveir mánuðir í Tromsø og í Alta. Ég hef oft sagt það þegar ég er spurður hvort ég ætli ekki að flytja til Íslands aftur, að ég sé á leiðinni, hafi bara millilent í Lófóten á leið minni heim aftur.

Þegar Sigurlaug systir mín sendi þankakeflið yfir til mín sagði hún að við hefðum oft rætt um ólíkan reynsluheim stráka og stelpna á þessum árum. Ég held að þannig sé það enn. Við höfum oft rifjað upp ýmislegt frá uppvaxtarárunum í Sandgerði, og það hefur litið út fyrir að við höfum verið á tveimur mismunandi stöðum. Strákar léku sér venjulega saman út af fyrir sig og stelpur líka. En stundum komu hóparnir saman, og þá var farið í boltaleiki, parís eða snúsnú. Við strákarnir fórum víða, upp í heiði, niður í fjörur, niður á bryggjur eða við læddumst um á allskonar “pappaloftum” og ranghölum fiskvinnsluhúsanna í ævintýraleit. Á sumrin vorum við heilu dagana í fótbolta á Borgartúninu eða fórum upp í trönur, slógumst, klifruðum þar og byggðum stórar rólur og sveiflur, og lifðum af skreið. Mæður okkar skildu ekkert í að við skildum ekki vera glorhungraðir þegar við komum heim eftir langan útidag.

Lovísa, Telma, Sigfús og Róbert

Lovísa, Telma, Sigfús og Róbert

Þessi mismunandi reynsluheimur kom greinilega í ljós þegar fjölskyldurnar hittust suður á Bala. Þá settust stelpurnar í hlýjuna í eldhúsinu hjá ömmu, fengu heitt súkkulaði og kökur, en við strákarnir hurfum allir upp á loft, þegar við höfðum hámað í okkur, til Rúnars og Lolla sem þá bjuggu þar hver í sínu herbergi. Það var oft farið út og upp á ýmsu fundið, nóg var plássið.

Sagan um dúfurnar sem Sigurlaug sagði frá er enn eitt dæmi. Kvöld eitt kallaði Holli á mig og Gumma bróður og fór með okkur upp í ris í íbúðarhúsinu sem hann var að byggja. Þar var dúfnapar sem hann gaf okkur, og sama kvöldið sem við komum þeim í leyfisleysi fyrir í kofa systra okkar verpti hún tveimur eggjum. Þessi fjölskylda var síðan upphafið að mikilli dúfnarækt okkar næstu árin ásamt dúfum sem við veiddum í sérsmíðaðar dúfnagildrur.

Það sem álitið var heppilegt fyrir stelpur að læra og tileinka sér var greinilega allt annað en hjá okkur strákunum. Þegar ég hringdi í Gunnsa (gullkálf) vor eitt í menntaskóla og spurði hvort hann ætti ekki laust pláss handa mér á bát, sagði hann svo vera, en ég yrði að vera kokkur á Freyjunni sem átti að fara á humar. Ég hélt nú að ég gæti það, en ég hafði aldrei verið látinn sjóða vatn fram að því, og sagði honum reyndar ekkert af því. Það bjargaðist síðan allt saman. Lóa lánaði mér bókina “Unga stúlkan og eldhússtörfin” (ég sé að ég hef strikað yfir “unga stúlkan” og skrifað “ungi pilturinn”), sem ég hafði um borð og á kvöldin þegar ég var í landi fór ég heim til mömmu og fékk ýmis góð ráð um matseld og innkaup.
Sigurlaugu hefur tekist að halda til haga ýmsu frá árunum í Sandgerði. Ég hef flutt oft og ýmislegt glatast. Þó á ég bátinn Skírni (en afi og Lolli áttu hann) sem ég smíðaði í handavinnutíma hjá Ara í Klöpp, uppi á lofti hjá Kidda Lár ef ég man rétt.

Þegar Róbert eignaðist sinn fyrsta geislaspilara sagði ég þeim systkinum að þegar við vorum á þeirra aldri var bara eitt útvarp á hverju heimili, með einum hátalara og einni útvarpsstöð. Hann spurði þá hvernig við hefðum eiginlega lifað þessi bernskuár af. Ég sagði að það hefði ekki verið neitt vandamál, alltaf nóg að gera bæði sumar og vetur og okkur hefði aldrei leiðst.

Lengi býr að fyrstu gerð. Það hefur ýmislegt fylgt mér síðan. Ég er einn fárra sem tíni krækiber á hverju hausti, sama hvar ég er, og bý til saft. Síðan er áhuginn á flugvélum, sem hófst snemma í Sandgerði, ódrepandi og eykst bara frekar en hitt með árunum. En erfitt er að skýra að áhugi minn á fjallgöngum hafi byrjað í Sandgerðisheiðinni.

Ég sendi þankakeflið áfram til frænku minnar, Guðrúnar Guðmundu Kjartansdóttur (Gunnu Mundu, dóttur Gullu og Kjartans).

Leknesi í Lófóten 24.10.2008, Sigfús Kristmannsson.