Kristþór Gunnarsson heiti ég, alltaf kallaður Diddi. Fæddur 1960, sonur Sigrúnar Guðnýjar Guðmundsdóttur (Sillu frá Bala á Stafnesi) og Jóhanns Gunnars Jónssonar úr Hafnarfirði sem nú er látinn.  Systkini mín eru Guðrún (Gunný), Jón (Nonni), Guðmundur  (Mummi) og Þjóðbjörg (Bagga).  Ég er kvæntur Ásrúnu Rúdólfsdóttur gæðastjóra Vegagerðarinnar og saman eigum við tvíburana, Jóhann Þór og Kristrúnu Helgu. Þau eru 19 ára gömul og nemar í Kvennaskólanum.  Ég fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði og er því í grunninn innfæddur Hafnfirðingur og löggiltur Gaflari.  Ég flutti til Sandgerðis þegar ég var eins og hálfs árs og ólst þar upp.  Ég fór í menntaskóla og  síðan í háskóla og bjó eftir það eingöngu á sumrin í Sandgerði.  Í dag bý ég og fjölskylda mín í Hafnarfirði. Ég rek í dag Ísafoldarprentsmiðju (sem prentar m.a. Fréttablaðið ) og einnig fiskútflutningsfyrirtækið Icegroup í Keflavík með bræðrum mínum. Ég er Sandgerðingur og verð alltaf Sandgerðingur og er mjög stoltur af því.

Kristrún Helga , Ásrún, Kristþór og Jóhann Þór

Kristrún Helga , Ásrún, Kristþór og Jóhann Þór

Það var gaman að alast upp á Vallargötu 17.  Með Gísla Eyjólfs öðrum megin og Ingvar og Gerðu hinum megin. Á móti voru Jón Simmer (Holli) og Jobba-Gunna. Fyrir aftan voru Manni og Snjólaug og ekki var langt í Stellu móðursystir mína og Búbba.

Holli nágranni var mjög sérstakur fýr. Enginn virtist vita hver hann var og hvaðan hann kom. Hann setti snemma á stofn grænmetisræktun á blettinum á milli Vallargötu og Strandgötu þar sem sjoppan og bensínstöðin eru. Hann ræktaði ýmisskonar grænmeti eins og kál, rófur, næpur, radísur ofl.  Einnig setti hann upp gróðurhús. Ég man eftir því að eitt sinn fór ég með mömmu til þess að kaupa grænmeti og hún spurði Holla hvort radísurnar væru stórar og þá svaraði hann:  „Þær eru stærri en pungurinn á honum Gunnari þínum“.  Hljómaði þetta svar skringilega í eyrum barnsins.

Það var gott fyrir barn að alast upp í Sandgerði þar sem leikvöllurinn var þorpið, sjórinn, fjaran, bryggjan  og heiðin.

Heiðin var endalaus uppspretta ánægju.  Fuglalíf var mjög fjölbreytt og þekkti maður nánast hverja einustu fuglategund og egg þeirra.  Þarna voru kríur, spóar, sendlingar, sandlóur, lóur, lóuþrælar, stelkar, sílamávar, svartbakar, tjaldar, maríuerlur, stokkendur og æðafugl. Lítið sem ekkert var af þröstum enda nánast engin tré í Sandgerði á þessum árum. Fuglasöngurinn í heiðinni var því ótrúlega fjölbreyttur og fallegur.

Vallargata 17. Nonni á DBS hjólinu sínu. Mummi í skónum hans pabba og Moswitchinn í heimkeyrslunni.

Vallargata 17. Nonni á DBS hjólinu sínu. Mummi í skónum hans pabba og Moswitchinn í heimkeyrslunni.

Mávavarp var töluvert bæði fyrir austan Rockwill og einnig ofarlega í heiðinni á milli Stafnes og Sandgerðis. Ég man eftir því að fimm ára gamall fór ég með Gísla Óla píp upp í heiði og fann fyrstu mávaeggin mín (þrjú í hreiðri) . Eftir þetta fór ég á hverju ári í mávaeggjatínslu í Miðnesheiðina og geri enn.

Skondið tilvik átti sér stað eitt sinn þegar við vinirnir ég og Ómar Björns þá 14 og 15 ára, fórum í eggjaleit fyrir ofan Rockwill.  Ég held að við höfum ekki fundið nema eitt egg og vorum á leiðinni heim.  Við gengum framhjá Rockwill girðingunni norðanmegin, stöldruðum við fyrir utan girðinguna og horfðum á nokkra hermenn leika blak.  Á girðingunni var varúðarskilti um að ekki mætti fara inn fyrir girðingun.  Allt í einu kallar einn hermannanna sem voru að leik upp og bendir á okkur.  Þá varð allt vitlaust . Hermaður með hríðskotabyssu og geltandi hund í bandi kom hlaupandi yfir til okkar og skipaði okkur að koma inn fyrir  girðinguna.  Við reyndum að segja honum hvað við hefðum verið að gera og sýndum honum eggið en það hafði bara öfug áhrif á hann og hann æstist enn frekar og beindi að okkur byssunni. Við vorum síðan dregnir inn fyrir girðinguna og látir dúsa í, varðhúsi með geltandi hundinn fyrir framan okkur á meðan hermaðurinn fór í símann til að hringja.  Eftir töluvert langa stund kom íslenska lögreglan og náði í okkur.  Var þar kominn Þórir Maronsson föðurbróðir Ómars.  Hann sagði við okkur í gríni „hvort við ætluðum að setja bandaríska heimsveldið á hliðina“.  Við vorum allavega fegnir að sleppa og þó að þetta væri alger undantekning hvað varðar samskipti okkar við bandaríska hermenn þá sýndi það þó hvað lítið þurfti til, að þeir gripu til byssunnar.

Snemma hneigðist ég til viðskipta og urðu margir fyrir barðinu á því.  Ég bjó til drullukökur úr mold og skreytti með blómum og seldi síðan Stellu frænku.  Ég skil enn ekki langlundargerðið í Stellu þegar „sölumaðurinn“  birtist og bauð drulluköku til sölu.  Hún gaukaði að manni pening og sagði síðan: „Settu þetta nú Diddi minn fyrir aftan tröppurnar hérna“. Einnig var tínt melgresi og litað með matarlit og selt. Farið var niður á bryggju til að veiða fisk fyrir þá sem áttu ketti.  Gerða keypti stundum og  Jobba-Gunna stundum.

Einn stórbisnessinn var að ganga fjörur og týna upp netakúlur og hringi og ef heppnin var með einn og einn belg.  Síðan var bankað uppá á Barðanum og þetta boðið til sölu.  Ég man eftir að útgerðarmaðurinn sagði eitt sinn: „ Ætlið þið að selja mér mínar eigin netakúlur‘“.  Við játtum því og rökstuddum það með því að hann hefði týnt þessu.  Hann tók þeim rökum og borgaði og allir voru sáttir.

Kaninn var með golfvöll á Þóroddsstöðum, á milli Garðs og Sandgerðis og hjóluðum við strákarnir stundum þangað í viðskiptaerindum.  Við tíndum upp golfkúlur sem golfararnir höfðu týnt.  Sérstaklega var fjaran fengsæl og tjörn ein, sem slá þurfti yfir til að komast á ákveðið grín.  Við biðum stundum við tjörnina og þegar einhver dreif ekki yfir og boltinn fór í tjörnina þá óðum við útí, náðum í kúluna og seldum hinum óheppna/óhittna hana á 25 cent en það var uppsett verð fyrir kúluna.  Einnig héldum við á golfpokunum fyrir Kanann og kostaði það einn dollar.  Eftir fengsælan dag var síðan hjólað í Ölduna á Tjarnargötunni og keyptir hamborgarar og franskar og greitt með í dollurum sem voru mjög eftirsóttir í þá daga.

Fermingarbörn í Hvalsneskirkju 1974. Undirritaður þriðji frá hægri, efsta röð.

Fermingarbörn í Hvalsneskirkju 1974. Undirritaður þriðji frá hægri, efsta röð.

Fiskitrönurnar fyrir ofan Ásabraut þar sem nú eru Holtsgata og Hólagata voru mjög spennandi leikvöllur.  Við tókum trönuspírurnar og bjuggum til bjálkakofa úr þeim. Einnig náðum við í net úr trolli og stengdum ofan á trönurnar.  Þá var komið öryggisnet sem við gátum endalaust leikið okkur í.  Ekki geri ég ráð fyrir að starfsmenn Miðness hafi verið mjög ánægðir þegar þeir komu að gera trönurnar klárar fyrir næstu vertíð. Mikil vinna hefur eflaust farið í að taka niður þau „leiktæki“ sem við höfðum dundað okkur við allt sumarið að setja upp.

Það voru mikil forréttindi að geta byrjað að vinna þegar maður hafði hug á. Níu ára gamall labbaði ég mér niður í Rafn hf. og bað um að fá að tala við verkstjórann sem var Jói í Tungu.  Bað um vinnu og fékk hana.  Ég man enn hvert fyrsta starfið var en það var að ná í pækil í fötu, slá tappann úr síldartunnunum og fylla upp með pækli þar sem þörf var á.  Nú eru einhverjar Evrópureglugerðir sem banna krökkum að fara að vinna fyrr en þau verða 14 ára og þá eingöngu nokkra tíma á dag.

Ég vann nokkur sumur hjá Hreppnum og einn af þeim karakterum sem ég kynntist þar var Guðni frá Garðsstöðum í Garði. Guðni sá um að sprengja fyrir nýjum götum eins og Holtsgötu og Hólagötu. Voru þá boraðar holur, fyrir dínamittúpur í klöppina með loftbor. Þess vegna var hann oft kallaður Guðni á pressunni.  Guðni sagið okkur strákunum oft mergjaðar sögur.  Ein sagan var af heljarmenninu Einsa Gests sem bjó í Gilinu rétt hjá Norðurkoti.  Þið munið kannski eftir honum á hjóli í gallabuxum og gallajakka. Ein sagan var svona:  Sjómenn höfðu boðað verkfall og var Einsi einn af verkfallsvörðunum. Húsvíkingar gerðu út frá Sandgerði á þessum tíma og hugðust hunsa verkfallið.  Þegar Einsi kemur niður á bryggju þá sér hann hvar Húsvíkingarnir eru að handlanga fullbeitta línubala niður í bát.  Einsi skellir sér í röðina og þegar honum er réttur bali þá hendir hann honum í sjóinn.  Stór og stæðilegur Húsvíkingur sér þetta og ræðst að Einsa.  Einsi tekur hann þá á loft og skellir honum ofan í einn línubalann sem stóð á bryggjunni  og henti síðan bæði manni og bala saman í sjóinn.  Ég sel þessa sögu ekki dýrari en ég keypti hana hjá Guðna.

Oft voru miklar haustrigningar þegar ég var að alast upp í Sandgerði. Mynduðust þá miklar tjarnir hér og þar í bænum. Ein tjörnin var Bensa tjörn ( á Bensa túni).  Önnur var Holla tjörn sem var norðan við athafnasvæði áðurnefnds Holla.  Einnig var oft stór tjörn þar sem Slysavarnarhúsið er núna á milli Vallargötu og Strandgötu.  Alltaf var verið að finna eitthvað upp til þess að fleyta sér á, á þessum tjörnum.  Eitt af því sem við gerðum var að taka 200 lítra olíutunnur og skera þær sundur og beygja þannig að það mynduðust tvær skálar sem voru fastar saman. Þetta gerðum við með meitli og hamri,  sem við fengum lánaða hjá Manna frænda (Kristmanni Guðmundssyni).  Verkið tók einn til tvo daga.  Ég skil ekki hvernig nágrannarnir gátu þolað hávaðann af þessari iðju okkar og hvers vegna enginn kvartaði yfir honum.  Þegar frysti þá mynduðust oft fínar aðstæður á þessum tjörnum til skautaiðkunar.

Ég man eftir því að ég hjálpaði mömmu allavega eina vertíð að salta síld hjá Röbbunum.  Þá var síldin flokkuð í tvær stærðir.  Í hvert sinn sem klárað var að salta í eina tunnu var kallað í þá sem tóku tunnurnar frá konunum og fengu þær þá álpening fyrir sem þær settu í stígvélið.  Tvær tegundir voru af þessum álpeningum, ein fyrir tunnu með lítilli síld og önnur fyrir stóru síldina.  Að sjálfsögðu fékkst meira fyrir að salta tunnu af lítilli síld en stórri vegna þess að það tók lengri tíma.  Síðan helltu konurnar úr stígvélunum að degi loknum og fengu greitt samkvæmt þeim peningum sem þær skiluðu inn.

3. Flokkur Reynis í knattspyrnu. Fremri röð frá vinstri: Grétar Sigurbjörnsson, Jón Guðmann Pétursson, Ómar Björnsson, Jón Örvar Arason, Arnar Karlsson, Guðmundur Jósteinsson. Aftari röð: Kristþór Gunnarsson, Árni Óskarsson, Jón B. G. Jónsson. Karl Ólafsson, Óskar Sigurður Magnússon og Ásgeir Þorkelsson.

3. Flokkur Reynis í knattspyrnu. Fremri röð frá vinstri: Grétar Sigurbjörnsson, Jón Guðmann Pétursson, Ómar Björnsson, Jón Örvar Arason, Arnar Karlsson, Guðmundur Jósteinsson. Aftari röð: Kristþór Gunnarsson, Árni Óskarsson, Jón B. G. Jónsson. Karl Ólafsson, Óskar Sigurður Magnússon og Ásgeir Þorkelsson.

Fótboltinn átti hug minn allan þegar ég var yngri.  Fyrirmyndin til að byrja með var Siggi Dags markvörður Vals.  Þegar maður var Siggi Dags þá skutlaði maður sér hvort sem var á stöngina, í drullupoll eða hvert svo sem boltinn stefndi.  Æfingar hófust snemma með Reyni Sandgerði eða fljótlega eftir að hnén náðu upp fyrir boltann.  Þjálfarar voru m.a. Ari frá Klöpp, Eskild og Siggi í Tungu.  Siggi þjálfaði okkur í mörg ár og undir hans stjórn náðum við góðum árangri.  Óhemju tími hefur farið í þetta hjá Sigga og á hann heiður skilinn fyrir áhugann, atorkuna og dugnaðinn.  Þegar við vorum í 2, 3 og 4 flokki vorum við allir vinnandi á fullu allan daginn og kvöldin fóru síðan í æfingar. Ég vann hjá Hreppnum í nokkur ár og oft var maður búinn að handgrafa skurði allan daginn og síðan tóku stífar fótboltaæfingar við fram eftir kvöldi. En áhuginn var svo mikill að enginn lét það á sig fá.  Árið 1978 og 1979 náði þessi hópur, sem Siggi hafði þjálfað upp að verða bikarmeistarar í 2 .flokki tvö ár í röð, bæði skiptin vann hann Breiðablik.

Í þessu liði voru að mestu leyti árgangarnir 1958 til 1960. Í liðinu voru margir góðir leikmenn og hefði verið gaman að sjá hvernig þetta lið hefði plummað sig í meistaraflokki ef allir hefði haldið áfram.

Ég sé það alltaf betur og betur hvað það hefur gefið mér mikið að alast upp í Sandgerði, innan um allt það góða fólk sem bjó þar og maður ólst upp með.  Einnig lærði maður að meta náttúruna og fjölbreytileika hennar því leikvöllurinn var sjórinn, fjaran og heiðin.

Ég skila keflinu til Sigurlaugar Kristmannsdóttur frænku minnar, sem hefur samþykkt að taka við því og vil ég að endingu þakka fyrir góðan vef.

Kristþór Gunnarsson