Ég heiti Sigurlaug Kristmannsdóttir og ég er fædd og uppalin í Sandgerði. Ég bý núna í Reykjavík ásamt manni mínum, Jóni Erni Arnarsyni og tveimur börnum: Jóni Erni og Sunnu Björtu. Maðurinn minn er rafmagnstæknifræðingur. Börnin okkar tvö eru háskólanemar og búa í foreldrahúsum. Ég á stjúpdóttur sem heitir Hanna, maðurinn hennar heitir Jón Þór og þau eiga soninn Hákon. Hákon er fimm ára og byrjar í skóla næsta haust. Fyrsta myndin er tekin af okkur fjölskyldunni um áramótin 1986.
Eftir að hafa lokið við Barna- og unglingaskólann í Sandgerði, tók ég landspróf frá Gagnfræðaskólanum í Keflavík, fór þá vestur til Ísafjarðar og lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum þar. Innritaðist síðan í Háskóla Íslands og lauk B.Sc. prófi í líffræði og prófi í uppeldis- og kennslufræði.
Ég hef starfað í framhaldsskólum nær óslitið síðan ég útskrifaðist úr HÍ, aðeins þau ár sem ég var heimavinnandi með börnin mín lítil eru undanskilin. Ég hóf kennsluferilinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og kenndi þar í tvö ár. Flutti síðan með manni mínum á Selfoss þar sem við bjuggum í átján ár og eignuðumst okkar börn. Maðurinn minn var hita- og rafveitustjóri á Selfossi og ég kenndi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þegar við fluttum til Reykjavíkur starfaði ég fyrst í Fölbrautaskólanum við Ármúla og var síðasta árið mitt þar fjarnámsstjóri. Núna er ég fjarnámsstjóri Verzlunarskóla Íslands. Stór hluti af starfi mínu tengist tölvusamskiptum og því get ég unnið að mestu óháð stund og stað. Það hentar okkur hjónunum mjög vel því maðurinn minn vinnur hjá Orkubúi Vestfjarða og við rekum annað heimili okkar í Arnarfirði.
Í uppeldisfræðinni er því haldið fram að „það þurfi heilt þorp til að ala upp barn“. Mér koma þessi fleygu orð í hug núna þegar ég sest niður og skrifa þankabrot mín frá uppvaxtarárunum. Ég fæddist á Suðurgötu 18 í Sandgerði, þann 17. septmeber 1956. Pabbi minn, Guðmundur Kristmann Guðmundsson, er fæddur og uppalinn á Bala á Stafnesi. Mamma mín, Snjólaug Sigfúsdóttir, var að norðan, fædd og uppalin á Húsavík. Foreldrar mínir byggðu húsið okkar sjálf og fluttu þangað með bræður mína tvo, Sigfús og Guðmund Rúnar. Elstu dóttur sína, Sigurlaugu höfðu þau misst á fyrsta ári. Yngstu systkini okkar tvö, Guðrún og Kristján fæddust líka á Suðurgötu 18.
Myndin hér til vinstri er tekin um jól 1956.Fyrstu minningar mínar eru úr sandbingnum sem þá var fyrir framan húsið okkar, en þar sat ég og mokaði með Hallveigu vinkonu minni, dóttur Svenna og Eddu sem buggu á Suðurgötu 16. Hallveig var besta vinkona mín á bernskuárunum og lékum við okkur mikið saman. Fyrir aftan Suðurgötu 18 var kofi sem pabbi smíðaði fyrir okkur og þar lékum við með dúkkurnar okkar. Bræður mínir lögðu síðan kofann undir dúfnarækt og þá fluttum við dúkkuleikinn í kofann sem var fyrir aftan hús Hallveigar. Hún átti ekki eldri bræður svo þar var ekkert dúfnaeldi. Við lékum okkar með dúkkur og dunduðum við að klæða þær í föt og gefa þeim að borða. Fyrirmyndirnar voru auðvitað mömmur okkar sem við vildum helst af öllu líkjast.
Þrjár systur pabba byggðu sín bú einnig í Sandgerði, þær Silla, Gulla og Stella og var mikill samgangur á milli þeirra systkina og okkur frændsystkinanna. Ég lék mér oft við frænkur mínar þrjár sem bjuggu á Vallargötunni: Guðbjörgu og Sigrúnu dætur Stellu og Guðrúnu dóttur Sillu. Einn af uppáhaldsleikjunum okkar var að leiðast í hring og syngja. Þær frænkur voru miklar söngkonur og kunnu ógrynni af lögum og ég kyrjaði með.
Við frændsystkinin vorum ekki há í loftinu þegar við fórum að sækja suður á Bala til ömmu og afa. Frá Sandgerði að Bala er drjúgur spotti, en okkur munaði ekki um hann. Fórum við ýmist gangandi eða á hjólum og oftast mörg saman í hóp. Á leiðinni urðu stundum á vegi okkar geltandi hundar og okkur stóð stuggur af þeim. Við reyndum að hughreysta hvert annað og sungum gjarnan til að bægja hræðslunni frá. Á hólnum sunnan við Melaberg var áð, þar töldum við leiðina að Bala vera hálfnaða og því tilvalinn stað til að taka fram nestið. Þegar við svo sáum heim að Bala rauk öll ferðaþreyta úr okkur og sprettum við þá heldur betur úr sporunum. Amma og afi tóku alltaf vel á móti barnaskaranum. Amma lagði verkin sín til hliðar, hvernig sem á stóð og bar fram kökur og mjólk. Við gerðum veitingunum góð skil, sögðum ferðasöguna og lékum á alls oddi. Við töluðum um allt milli himins og jarðar og amma miðlaði okkur af fróðleik sínum og lífsreynslu: Frá lífinu þegar hún var lítil stelpa, uppvexti foreldra okkar og fólki sem hún hafði kynnst á lífsleiðinni. Henni ömmu var lagið að tala við okkur krakkana eins og jafningja sína. Hún sagði skemmtilega frá og við hlógum dátt. Þegar afi kom í kaffi, snerust umræðurnar oftar en ekki um stjórnmál og þá var nú eins gott að rökstyðja mál sitt vel. Þegar degi tók að halla vorum við oft keyrð heim, en stundum fengum við að gista og það þótti okkur auðvitað skemmtilegast.
Myndin til hægri er tekin að hausti 1961, mig minnir að hún sé jafnvel tekin á aðfangadag jóla það ár.
Afi og amma voru með búskap á Bala. Þau höfðu kýr, hænsni og köttinn Gosa (allir kettir á Bala hétu og heita enn Gosi, óháð kyni þeirra). Einnig voru þau með kartöflu-, rófu-, næpu- og rabbabararækt. Við krakkarnir vorum alltaf tilbúin að hjálpa til við búverkin. Við sóttum kýrnar og hjálpuðum til í fjósinu. Tókum þátt í heyskapnum, fengum að raka og hjálpa til við að setja heyið í hlöðu. Reittum arfa í rófu- og næpugörðunum. Á haustin þegar tími var kominn til að taka kartöflurnar upp, fjölmenntum við að Bala og þá var nú líf í tuskunum. Í félagi við nágranna sína, átti afi vél til að taka upp kartöflurnar. Vél þessi var fest aftan í traktor og hún þyrlaði kartöflunum uppúr moldinni. Starf okkar krakkanna var að tína kartöflurnar upp í fötur, við krupum í moldinni og grófum með fingrunum og pössuðum að engin kartafla yrði eftir. Í hádeginu var farið að Bala og þar var amma búin að hafa til mat og auðvitað var uppáhaldsmaturinn okkar borinn fram: Soðnar vínarpylsur með kartöflustöppu og smjöri! Allir borðuðu eins og þeir gátu í sig látið.
Um jólin var ætíð haldin mikil veisla fyrir okkur öll hjá ömmu og afa á Bala. Við byrjuðum venjulega á því að fara til messu að Hvalsnesi og svo var farið heim til ömmu og afa. Borð voru dúkuð og við drukkum heitt súkkulaði með rjóma úr fallegu bollunum hennar ömmu og hámuðum í okkur fínar tertur og kökur. Það var glatt á hjalla og mikið spjallað og gjarnan gripið í spil. Afi hafði gaman af að spila og sýndi mikil tilþrif við spilamennskuna.
Í skammdeginu var farið með okkur börnin í ljós á sjúkraskýlið. Tilgangurinn var auðvitað að koma í veg fyrir að við fengjum beinkröm. Ég man enn eftir því að hafa farið með mömmu í kjallarann á sjúkraskýlinu, þar voru fleiri mæður með sín börn. Við vorum berháttuð og júgursmyrsl borið á litlu kroppana, gleraugu sett á okkur og svo vorum við látin leggjast á stóran bekk í ljósaherberginu. Þar inni var blátt ljós og undarleg lykt, seinna uppgötvaði ég að þetta var lykt af ósoni. Við áttum að liggja kyrr á bakinu og eftir ákveðinn tíma opnaði hjúkrunarkonan, hún Sólveig á Arnarhóli, hurðina og kallaði: Snúa! Þá lögðumst við á magann til að fá geisla á bakið. Á eftir reyndum við að þurrka sem mest af júgursmyrslinu af okkur, en ég man enn hvernig það klístraðist í ullarbolinn sem við klæddumst ævinlega innst fata. En tilgangurinn helgaði meðalið og ekkert okkar fékk beinkröm!
Ég verð að minnast á góða nágranna okkar, þau Hansa og Veigu og Imbu og Óskar. Hansi og Veiga bjuggu í Miðhúsum. Þangað fór ég oft með mömmu. Þau voru fullorðin og Hansi búinn að missa sjónina. Hann var vanur að sitja sunnan undir húsinu sínu þegar veðrið var gott og þá skottaðist ég stundum yfir götuna og heimsótti hann. Það var alveg sama hvað ég læddist hljóðlega að honum, alltaf varð hann mín var og sagði: „Sæl og blessuð Sigurlaug mín“. Svo settist ég á stéttina við hliðina á honum og sagði honum frá því sem fyrir augu mín bar, rétt eins og fréttakona í beinni útsendingu! Imba og Óskar bjuggu að Suðurgötu 15. Hún Imba er skáldkona og það þótti mér mjög merkilegt. Hún talaði ævinlega blíðlega til okkar krakkanna og gaf okkur stundum kandís.
Bræður mínir byrjuðu í skóla á undan mér og ég öfundaði þá mikið af þeirri forfrömun. Ég kepptist við að gera eins og þeir. Byrjaði að stafa heima hjá mömmu og var orðin læs þegar ég loksins hóf skólagönguna.
Myndin til vinstri er tekin á fermingardegi Sigfúsar 1965.
Einhverju sinni var mamma að kenna strákunum að prjóna og þá heimtaði ég að læra það líka. Það var látið eftir mér þó ég þætti reyndar enn of ung til að meðhöndla oddhvassa prjónana Ég fékk tvo prjóna og garnhnykil í hendurnar. Mamma fitjaði upp og sýndi mér handbragðið og ég reyndi að leika það eftir. Þetta var þó miklu erfiðara en það sýndist vera og ég man eftir mér vælandi inn í stofu með prjónana og ekkert gekk. Ég gafst þó ekki upp og úr varð lítið stykki sem ég varðveiti enn. Það byrjar á nokkrum lykkjum, en þær verða sífellt fleiri og fleiri þó ýmsar hefðu fallið niður á leiðinni. Ég get því með sanni sagt að það hafi kostað mig svita og tár að læra að prjóna. Síðan hef ég mikið prjónað og handavinna hefur verið eitt af mínum aðaláhugamálum.
Mamma var mikil handavinnukona og af henni lærði ég að meta handavinnu. Hún kenndi mér að prjóna, hekla og sauma. Ég vildi umfram allt læra sem flestar aðferðir og var fljót að grípa nýjungar. Ég man eftir að hafa bankað uppá hjá Rósu Jóa-Brands með harðangurs-og-klausturs dúk til að fá tilsögn hennar og Dóra Kidda-Lár kenndi mér að flosa.
Ég man enn fyrsta skóladaginn minn. Við byrjuðum í vorskóla og ég var auðvitað búin að hlakka mikið til. Ég átti forláta skólatösku, pennastokk og blýanta. Mamma fylgdi mér í skólann og Guðrún systir mín fór með. Hún fékk augastað á töskunni minni og vildi endilega halda á henni. Til að hafa hana góða, lét ég hana fá töskuna. Mér fannst ég færa þarna mikla fórn fyrir friðinn, en það fylgir því jú ábyrgð að vera stórasystir!
Þessi mynd er af okkur systrum við Kleifarvatn. Ég man enn hvað mér fannst ég hugrökk að vaða svona langt út í vatnið.
Mér fannst alltaf gaman í skólanum og mér gekk vel við lærdóminn. Ég man eftir mörgum góðum kennurum sem kenndu mér, en tveir þeirra eru minnistæðastir, Sigurður Ólafsson og Pálína Snorradóttir. Sigurður skólastjóri kenndi mínum bekk nær allar greinar í efstu bekkjum barnaskólans. Hann hélt uppi góðum vinnuaga. Á meðan við krakkarnir sátum og unnum, sagði hann okkur sögur af fornum köppum og hetjum. Hann gerði miklar kröfur til okkar varðandi vinnubrögð, við þurftum að vanda okkur við allt sem við gerðum. Nám var vinna sem við yrðum að stunda af kappi til að ná árangri. Pálína kenndi mér í fyrsta bekk unglingaskólans. Hún kenndi landafræði, náttúrufræði og mannkynssögu. Hjá henni fengum við að vinna verkefni í hópum, afla okkur upplýsinga, setja þær fram á margvíslegan máta og kynna fyrir hinum í bekknum. Við gerðum til dæmis veggspjöld sem við hengdum upp svo aðrir gætu skoðað þau og svo þurftum við að flytja fyrirlestra. Við kunnum að meta þessa breyttu kennsluhætti og lögðum okkur fram.
Í skólanum vorum við stelpurnar í handavinnunnutímum. Við sátum og bjuggum til ýmsa hluti sem þá var talið að ættu eftir að koma okkur að góðum notum síðar meir í lífinu. Þetta voru nytjahlutir eins og blússur, svuntur, eldhúskappar, pottaleppar, barnapeysur, handavinnupokar og koddaver. Og ekki dugði minna en að hekla blúndur úr hárfínu garni utan um koddaverin. Við lærðum líka að prjóna sokka og stoppa í þá með tveimur mismunandi aðferðum. Við gátum síðan valið á milli þess að prjóna þvottapoka eða kerrupoka fyrir dúkkurnar okkar og allar völdum við það síðar talda! Við saumuðum kontorsting og aftursting. Krossaum og góbelín. Flatsaum og venesíenskt. Á unglingsárunum sátum við vinkonurnar Hrafnhildur og Regína oft saman við hannyrðir. Ég á þessa handavinnu enn og hún vekur alltaf upp hjá mér minningar um þær góðu stundir sem við áttum við þessa iðju.
Ég fékk snemma áhuga á garðrækt og á mínum uppvaxtarárum voru ekki margir skrúðgarðar í Sandgerði. Silla frænka var þó með fallegan blómagarð fyrir utan húsið sitt á Vallargötunni og hvergi hef ég séð eins fallegar eldliljur og vestan við húsvegginn hjá henni. Gerða hans Ingvars í næsta húsi við Sillu var með mikinn garð. Ég fékk stundum að kíkja inn í garðinn til hennar og hún sýndi mér blómin sín og sagði mér hvað þau hétu. Þura á Bjarmalandi var líka með fallegan garð og þangað fór ég til að spjalla um blómarækt. Ekki má svo gleyma góðu konunni, en það var hún Margrét á Suðurgötu 6 ævinlega kölluð á mínu heimili. Hún var mikil garðyrkjukona og þangað fór ég oft til að skoða blóm. Þessar konur allar gáfu mér stundum afleggjara úr görðunum sínum og ég fór með þá heima að Suðurgötu 18 og setti þá í blómabeðið mitt þar. Það var þó ekki fyrr en ég var flutt að heiman sem foreldrar mínir tóku af alvöru til við að rækta garð í kringum húsið okkar.
Að lokum er hér mynd af mér með litla bróður minn, Kristján. Myndin er tekin á fermingardegi mínum 1970. Mamma saumaði fermingarkjólinn, en Sæunn í Bárugerði sneið hann og fór eftir teikningu sem ég gerði. Kjóllinn er enn til.
Mér verður stundum hugsað til móður minna og annarra kvenna í Sandgerði á þessum tíma. Þær voru flestar heimavinnandi húsmæður og höfðu meira en nóg að gera við að gæta bús og barna. Mamma var alltaf heima þegar við komum heim og ef út af því bar, hlupum við á milli húsa í nágrenninu og leituðum að henni. Ég heyri enn suðið í okkur fyrir eyrum mér: „Mamma, komdu heim! Komdu heim!“ Við linntum ekki látunum fyrr en hún lét undan okkur, en um leið og hún var komin heim, fórum við aftur út að leika okkur glöð í bragði.
Ég ætlaði mé svo sannarlega að feta í fótspor þessara miklu fyrirmynda sem mæður okkar voru: Ég sá mig í anda fara í fína kápu, setja á mig slæðu og binda hana í hnút á hökunni (það var mjög mikilvægt að hafa hnútinn á réttum stað), taka veskið mitt og fara niður í Kaupfélag til að kaupa mjólk í brúsa. Elda mat, baka kökur, sauma föt og reka heimili af sama myndarskap og þær gerðu. Standa við eldavélina og halda matnum heitum þar til bóndi minn kæmi heim úr vinnunni. En tímarnir breyttust. Ég var í Menntaskólanum á Ísafirði þegar íslenskar konur tóku sér frí frá störfum einn dag og sungu: „Þor´ég, vil ég, get ég!“ Ég tók undir þann söng af heilum hug og hef verið svo heppin að hafa átt kost á þeirri menntun sem ég hef viljað og skemmtilegum störfum í framhaldinu. Síðast en ekki síst hef ég verið svo heppin að eiga mann sem hefur stutt mig með ráðum og dáð til allra þeirra verka sem ég hef tekið mér fyrir hendur og saman höfum við sinnt börnum okkar og búi. Við höfum reynt að halda í heiðri þeim siðum og venjum sem við vorum alin upp við og koma þeim áfram til barnanna okkar.
Ég nefndi í upphafi að það þyrfti þorp til að ala upp barn. Á sama hátt þarf fólk til að byggja upp þorp. Þegar ég fer suður í Sandgerði og heimsæki vini mína og frændfólk, get ég ekki betur séð en að vel hafi til tekist. Ég er stollt af uppruna mínum og óska Sandgerðingum alls hins besta.
Mig langar til að senda keflið yfir hafið til Sigfúsar bróður míns sem býr í Leknes á Lófóten. Við höfum oft rætt um það hversu ólíkur reynsluheimur stelpna og stráka er. Sigfús, yfir til þín! Sigurlaug Kristmannsdóttir