Foreldrafélag Sandvíkurskóla bað mig að flytja erindi á fundi félagsins um tilurð foreldraröltsins á Selfossi en það hófst þegar ég var formaður foreldrafélags skólans. Þegar þessi beiðni kom, þá var ég flutt til Reykjavíkur en ég tók henni að sjálfsögðu vel og skrifaði niður erindið sem ég ætlaði að halda.
Síðla dags sem fundurinn átti að vera byrjaði að snjóa, ég lét það þó ekki aftra för minni og lagði af stað. Vil Litlu-Kaffistofuna var lögreglan að stoppa bíla því heiðin var orðin kolófær. Þetta erindi var því aldrei flutt, en hér birtist það í fullri lengd:
Hvers vegna foreldrarölt: Jú þar sem börnin okkar eru, þar eigum við foreldrar líka að vera og ef börnin okkar kjósa að rölta um götur bæjarins á kvöldin og langt fram á nætur, þá eigum við auðvitað að vera þar líka. Ykkur finnst þetta kannski svolítið djúpt í árina tekið hjá mér, en ég ætla að útskýra þetta aðeins betur. Þegar börnin okkar eru lítil, þá erum við foreldrarnir mikilvægustu manneskjurnar í lífi þeirra, við tökum þátt í smáu og stóru, orð okkar eru lög og þau efast aldrei um að við höfum rétt fyrir okkur. Svo koma unglingsárin og þá fara félagarnir allt í einu að skipta meira máli en við. Ég er ekki að segja að við séum ekki áfram mikilvægustu manneskjurnar í lífi unglinganna okkar og ég er ekki að halda því fram að við tökum ekki áfram þátt í öllu, en það er hins vegar alveg ljóst að á unglingsárunum fara félagarnir að skipta börnin miklu meira máli en áður. Það sem félagarnir segja er rétt og það sem félagarnir mega verða okkar unglingar auðvitað líka að mega. Hver kannast ekki við setninguna: Já en mamma allir hinir mega, af hverju má ég þá ekki líka. Allir hinir mega vera úti til klukkan 2 á föstudagskvöldið, af hverju má ég bara vera úti til 11?
Ef foreldrar taka sig saman og standa sem einn maður á bak við það sem má og það sem ekki má, þá erum við laus við öll þau leiðindi sem skapast þegar við þurfum að banna eitthvað sem allir hinir mega. Ég held því fram að með foreldraröltinu, þá séu foreldrar að segja opinberlega að þeir vilji ekki að unglingarnir þeirra séu úti langt fram eftir kvöldum. Með foreldraröltinu eru foreldrar að lýsa því yfir að þeir beri ábyrgð á unglingunum sýnum utan heimilis jafnt sem innan og að þeir vilji taka þátt í að móta unglingamenninguna í bæjarfélaginu.
Ég sat í stjórn foreldrafélagsins 3 vetur og þar af formaður foreldra- og kennarafélags Sandvíkurskóla í 2 vetur (1994-1997). Í minni stjórnartíð urðu tvívegis skólastjóraskipti við skólann, ég starfaði alls með 3 skólastjórum. Það var haustið 1995 sem við fórum af stað með foreldraröltið. Kveikjan var ráðstefna á vegum Heimilis og skóla sem við Ragnheiður Hergeirsdóttir sátum á vegum félagsins okkar. Þar var fjallað um foreldrarölt og lýstu foreldrar sem tekið höfðu þátt í því mikilli ánægju með það starf.
Skömmu eftir þetta var foreldrafundur í bekk sonar míns, sem þá var í 7. bekk og þar báru unglingamálin á góma, foreldrar höfðu áhyggjur af unglingunum sínum, þeir vildu hangsa of lengi úti á kvöldin, sérstaklega á föstudagskvöldum og erfiðlega gekk að setja unglingunum tímamörk og segja að þeir ættu að vera komnir heim klukkan 10, því allir hinir mega vera miklu lengur úti. Við ákváðum að vera samtaka um útivistartíma og við ákváðum að hrinda foreldrarölti af stað. Leið nú og beið og ekkert gerðist fyrr en hörmulegur atburður varð í nágrenni bæjarins eitt föstudagskvöldið sem leiddi til þess að ungur drengur í blóma lífsins lést. Þá hringdi Maríanna heimilislæknir í mig (en hún átti einmitt dreng í 7. bekk þetta haust) og mér er enn minnisstætt hvað Maríanna sagði í símann: Jæja, á nú bara að tala um hlutina og ekki gera neitt? Meira þurfti ekki til, við boðuðum foreldra til fundar í sal Sandvíkurskóla tveim dögum seinna og vorum komnar á rölt föstudagskvöldið á eftir. Ekkert búnar að skipuleggja okkur, æddum bara út á götur bæjarins, fullar af ákafa, þetta skyldi ganga.
Eftir þennan sögulega inngang ætla ég að deila með ykkur hvað vil lærðum og síðan í lokin hvers vegna ég tel foreldrarölt svo mikilvægt í bæjarfélagi sem þessu.
Við vorum 3 konur sem hófum röltið, auk mín voru það Anna Kjartansdóttir og Guðmunda Gunnarsdóttir. Við fengum lista yfir foreldra barna í 7. bekk Sandvíkurskóla (sem var þá elsti bekkurinn þar) og 7.-10. bekkja Sólvallaskóla og svo hringdum við út. Það verður að segjast alveg eins og er að ekki gekk eins vel að manna röltið og við ætluðum í fyrstunni, fyrir kom að við þyrftum að sitja heilt kvöld (þriðjudagskvöld) við símann heima hjá okkur og hringja fjöldan allan af símtölum áður en tókst að manna helgarnar, eitt þriðjudagskvöldið þurfti ég að hringja yfir 20 símtöl áður en ætlunarverkið tókst, flestir tóku okkur vel, en höfðu því miður ekki tíma, örfáir sendu okkur tóninn og sögðu sitt álit á þessu fáránlega uppátæki en alltaf voru einhverjir sem studdu okkur. Það kom fljótlega í ljós að það voru foreldrar yngsu unglinganna (í 7. og 8. bekk) sem voru jákvæðastir. Við sáum að þetta skipulagsleysi dygði ekki og ákváðum að kynna málið rækilega, boðuðum til borgarafundar í Hótelinu þar sem málefni unglinga voru tekin fyrir. Margir studdu okkur í þessu og Kiwanismenn með Hjört Þórarinsson í broddi fylkingar sendu okkur myndarlega fjárhæð til að standa straum af kostnaði. Í kjölfarið á þessum fundi voru tenglar í unglingabekkjum skólanna beðnir um að taka þátt í að manna vaktirnar með okkur og þá fór að ganga betur. Tenglarnir (eða bekkjarfulltrúarnir) eiga greiðari leið að foreldrum en einhverjir stjórnarmeðlimir, hver bekkur fékk úthlutað sinni helgi og átti að sjá um að manna rölt 1-2 helgar hvern vetur.
Það er lykilatriði að sem flestir foreldrar komi að röltinu, því fáar manneskjur standa ekki undir þessari miklu vinnu til lengdar. Stjórnir foreldrafélaganna geta skipulagt röltið, en bekkjarfulltrúarnir eiga síðan að sjá um að manna röltið. Samt held ég að það sé nauðsynlegt að einhver í stjórninni fylgist með, hringi í bekkjarfulltrúana og minni þá á. Það á enginn einn að vera í forsvari fyrir foreldraröltið, því það skapar álag á ungling þess einstaklings og vitna ég þá í reynslu einnar móður sem stóð í að starta röltinu: Unglingurinn hennar kom heim og sagði; mamma krakkarnir í félagsmiðstöðinni segja að þú hafir eyðilagt föstudagskvöldin fyrir unglingunum á Selfossi. Foreldraröltið á að vera skipað nafnlausum her foreldra, körlum og konum sem labba 3-4 saman um aðalgötur bæjarins á föstudags- og laugardagskvöldum.
Það er lykilatriði að hafa lögregluna með í starfsemi sem foreldrarölt er, það gefur röltinu vissan gæðastimpill, þetta er gert í samvinnu við lögregluna, þetta skapar samstarfsanda á milli foreldra og lögreglu, þetta gefur lögreglunni til kynna að okkur foreldrum er áfram um að útivistartími barnanna okkar fari eftir tilskildum reglugerðum, sýnir að við berum umhyggju fyrir unglingunum okkar og viljum vera í samstarfi við þá varðandi málefni þeirra.
En það er einmitt mergurinn málsins: Með foreldraröltinu viljum við sýna öllu bæjarfélaginu, lögreglunni, bæjaryfirvöldum, kennurum og skólastjórum, fjölmiðlunum, unglingunum okkar, okkur sjálfum og öðrum foreldrum að við berum umhyggju fyrir unglingunum okkar, við viljum vera þar sem þeir eru, til taks ef eitthvað bjátar á, aðstoða þau eftir megni en fyrst og fremst til staðar alveg eins og við viljum vera til staðar á heimilum okkar þegar unglingarnir okkar þurfa á okkur að halda þar.
Ég endurtek það sem ég sagði áðan að með foreldraröltinu, þá eru foreldrar að segja opinberlega að þeir vilji ekki að unglingarnir þeirra séu úti langt fram eftir kvöldum. Með foreldraröltinu eru foreldrar að lýsa því yfir að þeir beri ábyrgð á unglingunum sýnum utan heimilis jafnt sem inna og að þeir vilji taka þátt í að móta unglingamenninguna í bæjarfélaginu.
En foreldraröltið hefur á sér fleiri hliðar, í röltinu kynnist maður foreldrum félaga barnanna sinna (og þá verður auðveldara að hafa samband seinna ef á þarf að halda), maður heyrir reynslusögur frá öðrum foreldrum og veit þá að ýmsar uppákomur heima hjá okkur eru ekkert einsdæmi, það þekkist á fleiri heimilum að unglingsstúlkur skelli hurðum, unglingspilturinn nenni ekki að taka til í herberginu sínu og fleira. Ég fullyrði að eftir samskipti við aðra foreldra á röltinu, þá verði maður betra foreldri á eftir.
Ég ætla að láta orð mannsins míns vera lokaorðin hér í kvöld. Ég spurði hann áðan þegar ég var að hripa þessar línur niður hvað honum hefði þótt eftirminnilegast við forledraröltið og hans svar var: Hvað það var gaman að rölta um götur bæjarins með öðrum foreldrum.
Sigurlaug Kristmannsdóttir