Skip to main content

Og áfram er ofið

3. apríl 2017
Tókst að setja myndir með texta flæðandi í kring eftir ábendingu frá Samúel Erni kennara. Takk Samúel Örn, mikill léttir. Lærði af þessu. Var með skipun tvisvar sinnum við mynd og það gengur auðvitað ekki.

Hef verið að pirra mig á enskum orðum hingað og þangað á síðunum, tengdum bloggi eða pósti. Fékk ábendingu um að nota Loco Translate viðbót til að laga það. Get ekki betur séð en að Loco translate þýði alla síðuna á önnur tungumál, en það er ekki það sem ég var að hugsa um. Fékk ábendingu frá syni mínum um að fikta í Editornum í skrá sem heitir Archive.php. Ég sagðist ekki hafa kjark til að breyta henni og stráksi svaraði: Safnaðu þá kjarki móðir góð! Takk Jón Örn, sonur sæll. Ég tok áskoruninni og fann streng með “Posts in Category” og ég tók hann út og viti menn, setningin hvarf af heimasíðunni! Nú er ég að safna kjarki til að finna “Written by” og “Older Entries” í þessari skrá og eyða…

Þorbjörg benti mér á að nota Ninja Form til að setja upp skilaboða síðu og hér er hún komin: https://sigurlaug.is/hafa-samband/

Heimilisiðnaður

2. apríl 2017
Sunnudagur og áfram er ofið. Það er svo notalegt í morgunkyrrðinni að sitja við eldhúsborðið og vefa. Vefsíðugerð er heimilisiðnaðurinn í dag, annað getur beðið. Er byrjuð að setja inn efni undir liðinn Höfundur. Bæti við næstu daga. Setti Dagbók  og Veftré á sinn stað sem ég er ánægð með.

Tókst ekki að setja flæðandi texta utan um myndir eins og ég gerði hér: http://birta.bhs.is/~1709563629/verk1/fossinn.html  hefði viljað hafa þannig uppsetningu hérna: https://sigurlaug.is/hofundur/grein-fyrir-365-is/ Hlýt að finna út úr því seinna. Ekkert raskar ró minni þennan dásamlega sunnudagsmorgun, ekki einu sinni slagviðrið sem bylur á gluggunum. 

Laugardagsvefnaður

1. apríl 2017

Hef setið við vefnað í allan dag. Búin að setja inn erindi og ritverk. Held að allt sé komið en bæti við ef ég rekst á fleira. Valdi að setja ritverkin inn á issuu.com en glærurnar í slideshare.com. Það tók mig smá tíma að finna frumgerðir glæranna, þurfti að opna nokkra geisladisa – og sækja gamla fartölvu með geisladrifi – til þess verks. Óttalega eru geisladiskar leiðinlegar efnisgeymslur og gamla tölvan var hægvirk, ekki fyrir mína óþolinmæði. Ætli aukin hraði tölva sé hluti af vaxandi óþolinmæði minni? Eða kannski er það bara aukin eigin tíðni jarðar sem er þar á bak við. Hver veit, en hvað um það. Ég er nokkuð sátt við dagsverkið og ætla að hugsa um síðasta kaflann (Höfundur) það sem efir lifir kvöldsins. Er líka að hugsa um að skella veftré sem fimmta lið á bannernum.

Setti einnig Creative Common merki neðst á bannerinn, finnst reyndar bannerinn verða óþarflega hár við það, endurskoða það síðar.