Skip to main content

Enn eitt þankabrotið

21. apríl 2017
Fékk leyfi frá Gunna frænda og setti þankabrotið hans á síðuna. Þá er bara eftir að fá þankabrot frá Gunnu Mundu og þá eru þau öll komin. Fann svo leikinn Molekult sem ég þýddi einu sinni og bætti honum undir ritverk. Hann passar ekki alveg þar, en hvergi annars staðar svo sem heldur. Langar að hafa hann með.

Fjúkið úti fýkur

20. apríl 2017 – Sumardagurinn fyrsti
Hélt áfram að vefa og bætti þankabrotum Didda frænda við, með hans leyfi að sjálfsögðu.

Og hér er komin leiðrétt útgáfa af ljóðinu í Gagn og gaman 2, en nú er komið í ljós að það var Ísak Jónsson, stofnandi Ísaksskóla sem samdi þetta:

Nú áttu að læra að lesa
litli stúfur minn.
og vera ósköp iðinn
elsku drengurinn.

Og litla stúlkan ljúfa
líttu á þetta blað.
Þú líka þarft að læra
svo lesið getir það.

Þá fjúkið úti fýkur
og frostið bítur kinn.
Þá bezt er bók að taka
og byrja lesturinn.

Og læra ljóð og sögur
og lesa margt og nýtt.
Því nú er ylur inni
og oftast bjart og hlýtt.

Síðan endalausa

20. apríl 2017
Það viðrar vel til inniverka í dag og ég sit við vefsíðugerðina. Kláraði reyndar lokaverkefnið í fræðilega hlutanum um hádegisbil. Ég fann þankabrot bróður míns frá árinu 2009 og ég stóðst ekki mátið að setja þau inn með mínum þankabrotum. Fékk auðvitað leyfi hans áður. Þetta kallaði á safnsíðu sem heitir Þankabrot, að breyta nafninu á minni síðu og setja þessar síður í felliglugga. Allt komið núna og ég sátt við þessa viðbót. Ennþá fýkur úti fjúkið svo ég vitni nú í þá fornfrægu bók “Gagn og gaman 2” en svona hófst fyrsta blaðsíðan í þeirri bók og ég kunni hana utan að. Öll er vísan svona.

Nú fýkur úti fjúkið
og frostið bítur kinn,
þá bezt er bók að taka
og byrja lesturinn.

Framhaldið var svo einhvern veginn svona:

Þú litla stúlkan ljúfa
nú líttu á þetta blað.
Þú líka þarft að læra
svo lesið getir það.