Skip to main content

Texti lesinn og mynda albúm

17. apríl 2017
Í allan morgun hef ég setið við að lúslesa textann á síðunum og laga málfar og innsláttarvillur. Einnig hef ég minnkað margar myndir og passað uppá að það lofti vel í kringum þær.

Setti myndagallerý á svæðið fyrir neðan flekana fjóra. Bjó fyrst til borða og hann var ekki snjalltækja vænn, þannig að nú er komið þar myndagallerý. Röð myndanna stokkast upp við endurræsingu á síðunni. 

Búin að vera törn um páskana og á morgun set ég síðuna í salt og huga að verkefni í fræðilega hlutanum. Það á að fjalla um síðuna mína sem miðil. Mun tengja það verkefni við þessa síðu svo það er eins gott að vanda sig.

Síður um höfund

16. apríl 2017.
Kötturinn LommiÍ dag bættust við síður Um sigurlaug.is, Fjölskylda, Bali, Áhugamál, Menntun og Störf sem falla í flokkinn Höfundur. Ég hlóð inn Accordion plugin og setti efni á þrjár af þessum síðum inn í harmonikur sem það plugin gerir svo flott. Efnið á hinum þremur síðunum passaði ekki í harmonikuna, t.d. tókst mér ekki að láta myndagallerý birtast rétt þar.

Áttaði mig ekki alveg strax á því hvernig unnið er með þessar harmonikur og hringdi í vin, Díönu Sigurðardóttur sem kenndi mér þetta á örfáum mínútum. Takk Díana, gott að hafa svona reyndan kennara á línunni þegar mikið liggur við.

Síðurnar eru núna alls 64 og verður ekki fleiri síðum bætt við að þessu sinni. Næsta mál á dagskrá er að lús-lesa allt efni yfir og lagfæra málfar og innsláttarvillur.

Í lokin ætla ég að búa til myndagallerý sem mun fara á forsíðuna. Það gallerý ætla ég svo að nýta í síðasta hreyfimynda verkefnið.

Kötturinn Lommi fylgist með vefsíðugerðinni af miklum áhuga og auðvitað bættust myndir af honum í myndadagbókina. Hér er mynd af Lommanum með íbygginn svip.

 

 

Fleiri myndir

15. apríl 2017
Ein mynd bættist í myndadagbókina í dag. Hana tók ég með símanum mínum, því myndavélin gleymdist heima. Myndin er tekin í Stykkishólmi af krúttlega vitanum þar….en hann er í réttum litum.

Er ekki alveg viss um hvar á heimasíðunni ég mun setja myndadagbókina til frambúðar. Síðdegis ákvað ég að setja Dagbók sem val á aðalborðann og svo Dagbók í myndum undir þá síðu.