Ég heiti Sigurlaug Kristmannsdóttir og ég er fædd að Suðurgötu 18 í Sandgerði, þann 17. september 1956. Ég heiti í höfuðið á móðurömmu minni, Sigurlaug Björnsdóttur. Fyrsta barn foreldra minna fékk líka nafnið Sigurlaug, en hún lést á fyrsta ári. Ég skrifaði þankabrot um uppvöxt minn á síðuna 245.is og birti ég hann hér á þessari síðu.
Maðurinn minn heitir Jón Örn Arnarson og við erum búin að vera saman síðan vorið 1982, ef ég man rétt. Við eigum tvö börn saman, þau Jón Örn og Sunnu Björtu. Maðurinn minn á svo dótturina Hönnu.
Hér koma upplýsingar um foreldra mína, ömmur og afa.
Faðir minn hét Kristmann Guðmundsson. Hann fæddist að Bala á Stafnesi þann 30. ágúst 1925. Hann starfaði sem leigubílstjóri, rútubílstjóri, ökukennari og bifvélavirki.
Saman byggðu foreldrar mínir húsið sitt að Suðurgötu 18 í Sandgerði. Á næstu mynd erum við systkinin fyrir framan húsið, sem var heimili foreldra minna þar til mamma lést. Á myndinni eru (talið frá vinstri): Guðmundur Rúnar, Guðrún, Sigfús og Sigurlaug. Þegar þessi mynd er tekin, er yngsti bróðir okkar, Kristján, ekki fæddur. Elsta systir okkar, Sigurlaug, lést á fyrsta ári.
Pabbi var handlaginn og hafði á síðustu árum unun af því að skera út hluti í tré og liggja eftir hann margir fagrir munir. Hann lést þann 10. desember 2016, þá 91 árs.
Móðir mín hét Snjólaug Sigfúsdóttir. Hún fæddist á Húsavík, 11. desember 1927. Hún var húsmóðir og rak heimili sitt af myndarskap. Eftir að börnin fluttu að heiman, fór hún að vinna á leikskóla.
Næsta mynd er tekin á brúðkaupsdegi foreldra minna, þann 30. desember 1950.
Mamma var handlagin og hafði unun af allri handavinnu. Sérstaklega hafði hún gaman af að prjóna og útprjónaðir dúkar voru hennar sérfag. Eftir hana liggur meðal annars uppskriftabók fallegra dúka sem bíður eftir að unnið verður úr. Hún lést þann 27. desember 2001, þá aðeins 74 ára gömul.
Foreldrar mínir eignuðust sex börn:
- Sigurlaug, fædd 1950 og látin 1951
- Sigfús, fæddur 1951
- Guðmundur Rúnar, fæddur 1953
- Sigurlaug, fædd 1956
- Guðrún, fædd 1959
- Kristján, fæddur 1968
Kristmann, Sigfús, Guðmundur Rúnar og Snjólaug með Sigurlaugu. Myndin er tekin í stofunni á Suðurgötu 18 í lok árs 1956.
Guðmundur Rúnar, Guðrún, Sigfús og Sigurlaug. Myndin er tekin fyrir framan húsið að Suðurgötu 18 árið 1960.
Sigurlaug með Kristján. Myndin er tekin í stofunni á Suðurgötu 18 á fermingardegi Sigurlaugar árið 1970.
Afi minn í móðurætt hét Sigfús Jóhannesson og hann fæddist þann 22. júní 1890 í Laugaseli í Reykjadal. Þann 9. júní 1918 gengu afi og amma í hjónaband. Þau hófu búskap sinn á Tjörnesi en fluttust síðan á Húsavík þar sem hann bjó til dauðadags. Afi var lengst af íshússtjóri há Íshúsi Þingeyinga á Húsavík.
Á næstu mynd er Sigfús afi og Jóhannes sonur hans. Ekki eru til margar myndir af afa:
Afi lést þann 9. maí 1951, þá aðeins 61 árs að aldri. Frá unga aldri skrifaði afi dagbækur og orti ljóð. Sumt af þessu efni er ennþá varðveitt og það notaði ég til að skrifa bókina um ömmu og afa.
Nánar er fjallað um þessa bók á þessari síðu hér.
Amma mín í móðurætt hét Sigurlaug Björnsdóttir og hún fæddist í Rauf á Tjörnesi þann 8. júní 1897. Með foreldrum sínum fluttist hún síðan tveggja ára á Ketilsstaði á Tjörnesi og þar bjó hún uns hún fluttist að heiman með manni sínum, Sigfúsi Jóhannessyni. Þau áttu heima á ýmsum bæjum á Tjörnesi en fluttust síðan á Húsavík.
Á næstu mynd eru systurnar frá Ketilsstöðum, þær Sigríður, Sigurlaug (sitjandi) og Anna Soffía Björnsdætur.
Sigurlaug amma lést þann 30. janúar 1934, þá aðeins 37 ára að aldri. Móðir mín var þá aðeins 6 ára gömul. Afi syrgði ömmu og orti mörg falleg ljóð til hennar. Sum þeirra hafa varðveist í dagbókunum sem hann lét eftir sig. Þessar dagbækur notaði ég til að skrifa um hann og ömmu á vorönn 2016.
Nánar er fjallað um þessa bók á þessari síðu hér.
Afi minn í föðurætt hét Guðmundur Guðmundsson og hann fæddist þann 30. október 1902 að Hrauni í Grindavík. Ungur að aldri fluttist hann að Bala á Stafnesi.
Þann 4. júlí árið 1925 gengu afi og amma í hjónaband og bjuggu þau allan sinn búskap á Bala á Stafnesi, ef undanskilinn er einn vetur en þá bjuggu þau í Keflavík. Á Bala var bæði sjósókn og landbúnaður og afi var því útvegsbóndi.
Í viku hverri fór afa með egg til viðskiptavina sinna í Sandgerði og þessi mynd tók ég á kassamyndavél fyrir framan Suðurgötu 18. Á myndinni sést afi fyrir framan bílinn sinn og ef grant er skoðað þá sér í ömmu hinum meginn við bílinn.
Afi lést þann 11. apríl 1999, þá tæplega 97 ára gamall. Hér eru greinar og viðtöl sem birst hafa við afa minn í ýmsum fjölmiðlum.
Afi var alla tíð mjög kirkjurækinn maður og í mörg ár var hann formaður sóknarnefndar Hvalsneskirkju. Þennan bækling um kirkjuna skrifaði ég á vorönn 2016 og tileinkaði hann minningu ömmu og afa á Bala.
Nánar má lesa um þennan bækling hér.
Amma mín í föðurætt hét Guðrún Guðmundsdóttir og hún fæddist þann 12. júlí 1902 að Akrahóli í Miðneshreppi. Hún var bóndakona að Bala á Stafnesi og rak þar stórt heimili, þau hjónin eignuðust átta börn og svo var oft á tíðum vinnufólk að störfum á bænum.
Á Bala var vel tekið á móti öllum gestum og vorum við niðjar ömmu og afa auðfúsugestir þar. Balinn er ennþá í eign fjölskyldunnar og þangað sækjum við ennþá lífskrafti og hlýju sem amma og afi voru svo rík af.
Næsta mynd er af ömmu, afa og Sigfúsi Kristmannssyni. Myndin er tekin á fermingardegi hans árið 1965.
Amma lést þann 6. mars 1987, tæplega 85 ára gömul.
Amma var alla tíð mjög trúuð kona og krikjurækin. Þennan bækling um kirkjuna skrifaði ég á vorönn 2016 og tileinkaði hann minningu ömmu og afa á Bala.
Nánar má lesa um þennan bækling hér.