Pálmar frændi minn Þórisson Maronssonar hringdi í mig fyrir skömmu og falaðist eftir því við mig að ég tæki áskorun hans að rita næsta þankabrot á eftir sér á einhvern Sandgerðisvef, 245.is, sem mér var fullkomlega ókunnugt um. Ég tók áskorun Pálmars og fylgir niðurstaðan hér að neðan.
Ég fæddist snemma árs 1953 og er elsta barn Búbba og Stellu og því bróðir Guðbjargar og Sigrúnar og Bigga og Helga, sem öll eru búsett í Sandgerði og sumir lesenda hljóta að kannast við. Búbbi faðir minn hét Haraldur Sveinsson og var hann fæddur og upp alinn á Siglufirði. Móðir hans og amma mín, Guðbjörg Björnsdóttir, var systir Marons Björnssonar afa Pálmars. Stella móðir mín heitir Sigurbjörg Guðmundsdóttir og er dóttir hjónanna Guðmundar Guðmundssonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur á Bala á Stafnesi. Ég heiti fullu nafni Guðmundur Gunnar Haraldsson, en í Sandgerði hefur millinafnið verið nánast allsráðandi og er ég hér venjulega nefndur Gunni eða Gunni Stellu og jafnvel Gunni Búbba.
Í Sandgerði á þessum árum var gott að alast upp og mikil fjölbreytni í viðfangsefnum okkar krakkanna. Á sumrin var það heiðin og það var fjaran og sandgræðslan og það var bryggjan, kríuegg og krækiber, skeljar og kuðungar og veiðar á smáufsa, kola og marhnút. Á veturna voru það skautar á Skólatjörninni, Kettlingatjörn eða á Bensatúni og sleðar á götum. Þegar ég var mjög ungur tíðkaðist á góðviðrisdögum að fara í sjóinn og baða sig þar eða synda. Þá var hlýrra í veðri en í dag. Einnig man ég eftir fótboltaleikjum í fjörunni og við slíkt tækifæri sá ég í fyrsta skipti mann ganga á höndum. Mig minnir að það hafi verið Eskild.
Helstu leikfélagar framan af voru frændur mínir Sigfús og Gummi, synir Kristmanns móðurbróður míns, Grétar Vilbergs, Elli Jóns og Lindi Frissa. Hlutirnir æxluðust þannig að María dóttir okkar og Eiður sonur Linda hófu sambúð og eiga nú þriggja ára gamlan son og alnafna minn, Guðmund Gunnar. Hann er eina barnabarn okkar hjóna enn sem komið er og erum við Lindi í Fagurhlíð sem sé afar hans! Síðar bættist í hóp leikfélaga í Sandgerði og má m.a. nefna þá Hadda Heiðmundar, Gæja Ásu, Óskar í Hvammi, Einar Ingvars, Hörð Kidda Lár, Inga í Skólastræti, Óskar Dísu, Magnús á Hvoli, Hjalta Óla og marga fleiri ágæta félaga og vini.
Fjölbreytt mannlíf einkenndi Sandgerði þessara ára og eru ýmsir einstaklingar mér eftirminnilegir sem settu svip sinn á byggðarlagið. Af eldra fólki má nefna Ása í Sólheimum, Pál eldri á Lágafelli og Helgu konu hans, en Fjóla dóttir þeirra var gift Maroni frænda, Hansa og Veigu, Bensa í Krókskoti, Árna í Landakoti og Kela í Tungu. Þá má nefna menn eins og Einar í Klöpp, Ögmund og Rúnu í Stíghúsum, Guðna á Breiðabliki, Magga Þórðar, Þórð í Vallarhúsum að ógleymdum Hollendingnum Jóni Simmer. Hann var afar stórhuga og reisti tvö íbúðarhús og gróðurhús í sandgræðslunni. Í fari Hollendingsins bjó ætíð ákveðin dulúð og leyndardómur og menn voru á því að hann væri hámenntaður maður. Ég var um átta ára aldur þegar hann vann við að byggja eigin höndum stærra íbúðarhúsið og hjálpaði honum við uppslátt. Maður hafði þá fengist við smíðar á mörgum kofanum og meðal annars lent í því að stíga á nagla sem var frekar sársaukafullt. Nema hvað, þar sem við Jón dundum okkur við smíðarnar þá verður karlinum það á að stíga á nagla. Og hvílík uppákoma. Naglinn gekk upp í gegnum gúmmístígvél Jóns og þarna heyrði ég í fyrsta skipti fullorðinn mann brynna músum og veina. Hann hoppaði um á öðrum fæti um langa hríð á eftir og barmaði sér sáran.
Mest áberandi voru þó trúlega þeir sem maður hafði mest saman að sælda við í tengslum við verslun og viðskipti og opinberir starfsmenn. Þarna má nefna menn eins og Axel á Borg, en hjá honum fékk maður sælgætið, Hannes á símstöðinni er seldi manni frímerkin, Hjört í Kaupfélaginu sem seldi manni púðursykurinn og naglana, Óla Vill oddvita, Gunnlaug hreppstjóra, Sigurð skólastjóra, séra Guðmund og svona mætti lengi telja. Jenni í Báru setti svip á mannlífið þegar hann ók inn í þorpið á traktornum með kerru í eftirdragi sem við krakkarnir fengum oft að sitja á, Guðni á Garðstöðum á krananum með loftpressuna og Grímur kafari við hafnarframkvæmdir. Loks má nefna menn eins og Pál Ó., Heiðmund, Eskild, Jóa í Tungu, Guðmund á Rafnkelsstöðum, bræðurna Agnar og Óskar Júl, Óla löggu (síðar Óli píp) og svona mætti lengi telja.
Af konum má nefna Möggu Páls, Þuríði á Bjarmalandi og skáldkonuna Ingibjörgu Sigurðardóttur. Hún var afar barngóð og oft læddi hún að manni kandísmola. Að lokum get ég ekki látið hjá líða að minnast á Önnu Andrésar, en hún taldi það ekki eftir sér í upphafi sjónvarpsvæðingarinnar í Sandgerði, þegar fjöldi sjónvarpstækja í kauptúninu öllu var teljandi á fingrum annarrar handar, að hýsa heilu herskarana af strákum nánast á öllum tímum dags. Ég man vel eftir því þegar skóla lauk á föstudagseftirmiðdögum og tveir bekkir stráka úr skólanum hið minnsta fóru rakleiðis til Önnu til að horfa á Roy Rogers í kanasjónvarpinu. Þá var þröng á þingi, en Anna hin rólegasta með bros á vör.
Sjómannadagurinn og 17. júní voru jafnan miklir hátíðisdagur í Sandgerði á þessum árum og streymdi fólkið prúðbúið og í hátíðarskapi niður á bryggju eða upp á knattspyrnuvöll. Og auðvitað hlökkuðum við krakkarnir til. Þetta voru miklar hátíðir og mikið um dýrðir og skemmtiatriði og var m.a. gengin skrúðganga frá Samkomuhúsinu með Lúðrasveit Sandgerðis í broddi fylkingar. Þá var lúðrasveit í Sandgerði og einnig karlakór. Ég hreifst af leik lúðrasveitarinnar og fannst mér Öxar við ána einkar áheyrilegt og fjörugt lag. Í sveitinni spiluðu ýmsir af góðborgurum Sandgerðis og má þar nefna túbuleikarana Óla löggu og Eskild, trompetleikarana Óla læk og Guðna á Lambastöðum, trumbuleikarana Óskar á Reynistað og Þóri Marons, saxófónleikarann Bjössa Marons, tenorhornleikarann Helga Marons, hornleikarann Magga Ingvars og klarinettuleikarana Sigga í Báru og Svenna á Hvalsnesi. Ég var einkum snortinn af klarinettunni, þessu skrítna, ílanga, svarta og rörlaga hljóðfæri með mörgu silfruðu klappana. Á svona hljóðfæri hlyti að vera erfitt að spila.
Fótboltinn náði brátt hug og hjarta okkar strákanna, en stúlkur sáust aldrei spila fótbolta í þá daga. Ég man vel þegar ég spilaði fótbolta í fyrsta skipti. Ég var rétt um 6 ára og þetta var í Kelagarði við Uppsalaveg. Maður vissi ekki betur þá en að Kelagarður væri kenndur við hinn eina sanna Kela, Kela hennar Ólu. Svo var þó ekki og seinna kom í ljós að þetta var gamall kartöflugarður Kela í Tungu. Innan tíðar var maður svo kominn á kaf í fótboltann undir merkjum Reynis. Þá var Pele upp á sitt besta og Ríkharður Jónsson og Þórólfur Beck og þá tengdust allir framtíðardraumar fótboltanum. Flestir dagar vikunnar og flest kvöld fóru í fótboltaiðkun.
Eitt skyggði þó á fótboltann og leiddi til að hlé var gert á allri fótboltaiðkun, mig minnir á mánudagskvöldum klukkan rúmlega tíu, eftir tíufréttir. Þá skruppu allir heim til sín í u.þ.b. hálftíma, ekki þó til að horfa á sjónvarp, heldur til að hlusta á útvarp. Þetta var fyrir daga sjónvarpsins, en síldarævintýrið var í algleymingi. Við fórum allir sem einn hver til síns heima til að hlusta á síldarskýrsluna upp lesna í útvarpinu. Okkar maður var þar jafnan í forystu, en það var Eggert Gíslason á Víði öðrum.
Auðvitað lifðum við og hrærðumst í öllu er lýtur að sjó, bátum og fiski. Ég man t.d. mjög vel þegar Víðir annar kom nýr til Sandgerðis og þótti stórglæsilegt skip og bar af í flotanum bæði hvað snertir stærð, tæknivæðingu og glæsileika. Venjan var sú að við fengum jafnan fréttir af komu nýrra skipa í flotann og var þá hlaupið niður í fjöru, meðfram flæðarmálinu og skipinu fylgt eftir niður að bryggju. Og ekki var minna um að vera þegar skipin komu drekkhlaðin að landi með fullfermi af haustsíld. Þá tengdust draumarnir skipsstjórn á glæstum skipum og reyndar rættust þeir fyrir suma okkar.
Skólagangan hófst svo við sjö ára aldur. Ég man enn lyktina í skólastofunni þegar ég hóf skólagönguna við Barna- og unglingaskóla Sandgerðis. Þetta var vorið 1960 og hét að fara í vorskóla. Í raun má segja að ég hafi aldrei losnað úr skóla síðan. Ég hélt til Reykjavíkur í menntaskóla og háskóla og síðan til framhaldsnáms í Englandi. Að því loknu dvaldi ég eitt ár við rannsóknir við háskóla í Bandaríkjunum. Þaðan kom ég síðan heim til Íslands og hef starfað við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands allar götur síðan, þar sem ég starfa nú sem prófessor í efnafræði.
Sandgerðisskóli hafði á að skipa mjög góðu kennaraliði á þeim árum. Þar má nefna Jónu kennara, Inga kennara og sjálfan Sigurð skólastjóra. Hann var fremur strangur og röggsamur, en sanngjarn skólastjóri og kennari og naut mikillar virðingar flestra ef ekki allra nemendanna. Ég hef komið víða við í skólakerfinu bæði hér innan lands og utan en sjaldan upplifað svo virðulegt yfirvald sem Sigurður Ólafsson skólastjóri var.
Af einhverjum ástæðum lentum ég og Gummi frændi minn Kristmanns í tossabekknum hjá Jónu kennara í fyrsta bekk ásamt um tug annarra tossa. Ég var tiltölulega fljótur að læra að lesa og ég man enn ánægjuna þegar ég í tossabekknum náði þeim árangri að geta lesið 50 atkvæði á mínútu og fékk staðlað verðlaunaspjald hvítt að lit að launum. Jóna kennari færði mér þessa viðurkenningu – e.t.v. var það Sigurður skólastjóri sjálfur – og ég reyndi að stauta mig í gegnum hana. Ein setningin hljóðaði á þá leið að Enginn getur lært nema hann kunni að lesa. Þetta kom mér spánskt fyrir sjónir og ég man að ég bar þetta undir Gumma frænda, en við sátum saman. Gummi var að sjálfsögðu sammála mér í því að þarna væri prentvilla og að standa skyldi: Enginn getur lært nema hann Gunni að lesa. Okkur fannst þetta líklegt í ljósi þessa að það var jú hann Gunni Stellu sem fékk þessa viðurkenningu og það var ekki nema eðlilegt að nafn hans kæmi fyrir í hinum prentaða texta skjalsins. Þegar svo Gummi frændi fékk sams konar skjal nokkrum dögum síðar bar hann skjalið sitt undir mig með það fyrir augum að staðfesta fyrri grun okkar um mögulega prentvillu í skjalinu. Í skjali Gumma stóð orðið kunni en ekki Gummi og fór þá að renna á okkur tvær grímur. Skömmu síðar vorum við Gummi fluttir upp í betri bekkinn til Inga kennara og hættum þar með að vera tossar.
Tónlistarskóli var stofnaður í Sandgerði þegar ég var 10 ára og var skólastjóri og aðalkennari hans Guðmundur Norðdahl, mikill eldhugi og driffjöður og feykilega áhugasamur. Ég skráði mig í skólann og lærði auðvitað á klarinettu, svarta, rörlaga hljóðfærið með silfurklappana mörgu. Ekki leið á löngu uns ég var kominn á kaf í tónlist og blés í nokkur ár í Lúðrasveit Sandgerðis, fyrst undir stjórn Guðmundar Norðdahl, þá Eyjólfs Melsted og loks Lárusar Sveinssonar. Ég fór í Tónlistarskólann í Keflavík og síðar einnig í Tónlistarskólann í Reykjavík. Reyndar eru ekki mjög mörg ár síðan ég hætti að spila í lúðrasveit, því ég lék með Lúðrasveitinni Svanur í Reykjavík í um 20 ár. Ég er þó alls ekki laus við klarinettuna, því ég leik með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Reykjavík. Þá leik ég einnig í Rimlabandinu, sem er þriggja manna hljómsveit skipuð prófessorum við Háskóla Íslands og tengist íþróttaiðkun okkar háskólakennara, en nafnið hinum láréttu rimlum er finnast á veggjum í sölum íþróttahúsa. Það eru mikil forréttindi að fá tækifæri til að spila tónlist og þeirra forréttinda hefði ég svo sannarlega ekki viljað vera án. Ég er þó ósköp hræddur um að slík tækifæri hefði ég ekki fengið hefði Tónlistarskólans í Sandgerði ekki notið við í uppvextinum.
Atvinnuhorfur og atvinnutækifæri barna og unglinga og skólafólks var með öðrum hætti á þessum árum en nú er. Þegar við sjö ára aldur áttum við kost á atvinnu og var það í tengslum við þjóðhátíðardaginn 17. júni við fegrun og snyrtingu á götum og umhverfi þeirra. Þá fengust jafnmargar krónur á klst og menn voru gamlir í árum. Þá var gjarnan haft á orði að nú væri gott að vera 100 ára og með sand af seðlum. Við 9 – 10 ára aldur var þörf fyrir okkur krakkana við margvíslega vinnu tengda fiski og fiskvinnslu. Má þar nefna vinnu við saltfisk og skreið og við að slíta humar. Ég mun seint gleyma viðhorfi eldra fólksins til humarsins og síðar rækjunnar. Það vildi helst ekki koma nálægt því að vinna við þetta og botnaði ekkert í þeim útlendingum sem lét sér slíkan viðbjóð og óþverra um munn fara.
Þrjú sumur var ég í sveit hjá ömmu og afa á Bala. Þar kynntist ég margvíslegustu störfum er tengjast bæði landbúnaði og sjósókn. Þau hjónin höfðu kýr og þurfti að reka þær í haga að morgni og heim að kvöldi. Stór hluti sumarvinnunnar fór síðan í heyskapinn. Þegar gaf var róið til fiskjar á trillu sem afi átti og var það mikil upplifun. Aðalveiðarfærið var að sjálfsögðu handfæri, en stundum var þó lögð lína og jafnvel skötulóð og fékk maður þá tækifæri til að beita. Þorskur var uppistaðan í aflanum og var hann að mestu unninn í saltfisk á rammíslenskan hefðbundinn máta. Fiskinn þurfti að fletja, salta, rífa upp, vaska, himnudraga, sólþurrka og pakka. Þau hjón höfðu einnig hænsni sem þurfti að fóðra og voru eggin seld húsmæðrum í Sandgerði. Þarna var einnig stunduð garðrækt í umtalsverðum mæli og voru afurðirnar, kartöflur og rófur, seldar til Sandgerðis og Keflavíkur.
Á framhaldsskólaárunum naut ég þess að hafa næga atvinnu og nægilega langt sumarleyfi til að geta framfleytt mér allan veturinn í náminu. Flest sumrin starfaði ég í hreppsvinnunni og voru t.d. á þeim árum helstu götur þorpsins lagðar varanlegu slitlagi, gangstéttir lagðar og eitt og annað. Þetta var fyrst og fremst fjölbreytt útivinna. Þarna kynntist ég ýmsum áhugaverðum samstarfsmönnum og má þar nefna vin minn Ingvar Gísla Jónasson, sem var vel gefinn og menningarlega sinnaður. Einnig má þar nefna fyrrnefndan Kela, Þorkel Aðalsteinsson, sem var afar líflegur og skemmtilegur að vinna með. Með honum var maður til í hvað sem var og voru leiðinleg verk þar ekki undanskilin því kringum Kela var aldrei lognmolla. Og þarna unnu fjölmargir mætir menn eins og Einsi í Haga, Júníus eða Baddi í Bursthúsum, Jónas á Býjaskerjum, Bjarni í Hlíðarhúsum, Guðni á Garðstöðum, Haddi Heiðmundar, Þorgils Baldursson, Magnús á Hvoli og verkstjórarnir Svenni Páls og Summi Lár.
Færeyingar hafa búið í Sandgerði allt frá því að ég man eftir mér. Eskild var orðinn rótgróinn Sandgerðingur og var mjög áberandi í bæði tónlistar- og íþróttalífi Sandgerðinga. Hann var fæddur í Sumba sem er syðsti bær á Suðurey í Færeyjum. Skammt þaðan er Vágur sem er annar tveggja stærstu kaupstaða á Suðurey. Það var örugglega fyrir tilstilli Eskilds að Vágur og Sandgerði mynduðu með sér formleg vinarbæjatengsl. Knattspyrnuliðin skiptust á heimsóknum, einnig briddsliðin, kirkjukórarnir og loks stjórnir bæjarfélaganna. Á sjötta áratugnum var einnig mjög mikið um að Færeyingar leituðu til Íslands eftir atvinnu enda þeir harðduglegir og eftirsóttir í öll störf til sjós og lands. Það var því algengt að sjá Færeyinga á götum Sandgerðis. Ekki skildi maður nú mikið í því tungumáli sem þeir töluðu. Mér er það t.d. mjög minnisstætt þegar Eyðun Vest fluttist til Sandgerðis frá Vági ásamt foreldrum sínum en hann er jafnaldri minn. Við vorum um það bil 10 ára og mig minnir að ég, Elli Jóns, Óskar í Hvammi og Skúli í Hjarðarholti hafi verið að leik með hinum nýflutta Færeyingi. Við höfðum feykilega gaman af að láta hann telja endurtekið fyrir okkur upp að tíu á færeysku. Eyðun hóf talninguna: eitt, tvei, trí, fíra, fimm, seks, sjey, átta, og síðan kom: níggju og tíggju og þá lá við að við rifnuðum af hlátri í hvert sinn, hvílík hljóð! Og ekki þreyttist Eyðun við talninguna því hann hafði ekki síður gaman af en við. Síðar átti það fyrir mér að liggja að bindast Færeyingum traustum böndum því Maj-Britt, mín frábæra eiginkona, er þaðan og meira að segja frá Suðurey. Maj-Britt er frá Lopra, lítilli byggð sem liggur miðja vegu milli Sumba og Vágs og þar eigum við nú húsið þar sem hún fæddist og ólst upp í.
Í Háskóla Íslands starfa ég bæði við kennslu og rannsóknir í efnafræði. Starf okkar vísindamanna er í eðli sínu ekki mjög frábrugðið starfi og aðferðafræði fengsæls skipstjóra, en slíkir menn viðhafa oft á tíðum hávísindaleg vinnubrögð, er byggja á innsæi, rannsóknum, þekkingu, reynslu og kunnáttu. Skipstjórinn hefur athyglina í lagi og beitir henni óspart. Hann safnar upplýsingum og gefur gaum hvers kyns vísbendingum og skráir hjá sér eða leggur á minnið. Smám saman verður til þekking og hann nær að beita henni með árangri. Hann staðsetur miðin, hann lærir á náttúruna, veðurfar, sjólag og strauma, dýralíf, hegðun sjófugla og lærir jafnvel á botninn. Hann notar bæði sína eigin reynslu og reynslu annarra. Smám saman byggir hann upp þekkingu, kunnáttu og færni. Skipstjórinn, líkt og raunvísindamaðurinn, á síðan möguleika á því að tæknivæða þessa þekkingu og hagnýta hana. Trúlega er Eggert Gíslason og margir fleiri hans líkar meðal færustu vísindamanna á Íslandi, án þess þó að vera menntaðir í háskólum eða starfandi þar.
Lengi býr að fyrstu gerð. Ég er hræddur um að líf mitt hefði orðið frábrugðið því sem það er í dag og öllu fátæklegra hefðu mér ekki staðið til boða ýmis af þeim tækifærum sem mér buðust í uppvextinum heima í Sandgerði. Hér á ég við trausta og lærdómsríka skólagöngu, kynni af tónlist, íþróttum og margvíslegri menningu. Og auðvitað hefur mannlífið og áhrif frá því einnig náð að móta mig sem einstakling og mín viðhorf. Fyrir allt þetta er ég mjög þakklátur og tel mig heppinn að hafa fengið að alast upp í Sandgerði. Og auðvitað lít ég á mig fyrst og fremst sem Sandgerðing. Ég óska Sandgerðingum alls hins besta og skora á frænda minn Kristþór Gunnarsson, Didda Sillu, að taka við keflinu og koma því áfram veginn. Guðmundur Gunnar Haraldsson